Vefur í vinnslu
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Leikskólaaldurinn er mikilvægur tími náms og þroska.
Leikskólaaldur barna er skilgreindur eftirfarandi: Lægri aldursmörkin miðast við að barn hafi náð 12 mánaða aldri fyrir 31. ágúst, en efri mörkin miðast við upphaf grunnskólagöngu.
Aðalnámskrá leikskóla og menntastefna Akureyrarbæjar eru stefnumótandi leiðarvísar fyrir kennslu í leikskólum. Þær byggja á markmiðslýsingu laga um leikskóla og reglugerð um starfsemi þeirra.
Aðalnámskráin veitir öllum sem starfa við uppeldi og menntun leikskólabarna skýran, en sveigjanlegan ramma um starf sitt. Á grunni laga um leik-, grunn- og framhaldsskóla hafa verið skilgreindir grunnþættir menntunar: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Þessir grunnþættir eru leiðarljós í öllu leikskólastarfi og eiga að fléttast inn í daglegt starf leikskólanna Hver leikskóli mótar síðan eigin skólanámskrá og starfsáætlun út frá þessum viðmiðum.
Í leikskólum á Akureyri er m.a. lögð áhersla á þekkingu, leikni, virðingu og vellíðan ásamt því að lögð er áhersla á að hvert barn læri að vinna með öðrum, að deila með öðrum, læri samkennd og að taka tillit til annarra.
Sækja þarf um leikskóla á rafrænu formi í Þjónustugátt. Mikilvægt er að umsóknin sé nákvæmlega útfyllt. Umsóknir þurfa að hafa borist fyrir 1. febrúar það ár sem óskað er eftir að barn hefji skólagöngu..
Aðalinnritun hefst í marsmánuði. Við innritun fá foreldrar senda tilkynningu í tölvupósti með upplýsingum um hvaða skóli stendur þeim til boða fyrir barn sitt. Skólastjórar gefa allar nánari upplýsingar s.s. um tímasetningar og fyrirkomulag aðlögunar barna. Tímasetning aðlögunar ræðst aðallega af tveim þáttum þ.e. sumarlokun skólans og uppsögnum barna af elsta árgangi. Börn eru því að hefja skólagöngu sína á mismunandi tímum frá maílokum fram á haust, allt eftir aðstæðum hvers skóla fyrir sig. Fjöldi barna í skóla ræðst af stærð hans og lýkur innritun þegar þeim barnafjölda hefur verið náð. Ef börn hætta í skólanum yfir vetrarmánuðina eru ný börn innrituð.
Sjá nánari reglur um innritun í leikskóla hér.
Veturinn 2025 - 2026 verða starfandi tíu leikskólar á Akureyri og í Hrísey. Skólarnir eru: Hulduheimar (Holtakot og Síðusel), Iðavöllur / Dvergheimur í Oddeyrarskóla, Klappir, Kiðagil, Krógaból / Móar í Síðuskóla, Lundarsel / Pálmholt, Naustatjörn, Tröllaborgir / Árholt og Hríseyjarskóli, samrekinn leik- og grunnskóli. Hólmasól er rekin af Hjallastefnunni ehf. með styrk frá Akureyrarbæ.
Fræðslu-og lýðheilsuráð Akureyrarbæjar er stjórnarnefnd málaflokksins en dagleg yfirstjórn skólamála er á höndum Fræðslu- og lýðheilsusviðs, Glerárgötu 26, sími 460 1000, akureyri@akureyri.is. Afgreiðslutími er virka daga 9-15.
Skólastjóri er yfirmaður skóla og ber ábyrgð á faglegri og rekstrarlegri starfsemi hans. Aðstoðarskólastjóri er staðgengill skólastjóra. Innan hverrar deildar starfa deildarstjórnendur sem bera ábyrgð á og stjórna deildarstarfinu. Allt starfsfólk skólanna vinna að uppeldi og menntun barnanna og hefur virðingu og umhyggju að leiðarljósi. Starfsfólk er bundið þagnarskyldu en þagnarskyldan nær þó ekki til atvika sem ber að tilkynna samkvæmt barnaverndarlögum.
Fræðslu- og lýðheilsusvið veitir sérfræðiþjónustu fyrir nemendur í grunn- og leikskólum. Nánar um skólaþjónustuna hér.
PMTO – foreldrafærni, stendur fyrir „Parent Management Training Oregon aðferð“. PMTO er þjónusta við börn, foreldra og skóla sem hefur það meginmarkmið að fyrirbyggja alvarlega hegðunarerfiðleika og taka markvisst á hegðun barna með aðferðum PMTO. Unnið er með ákveðin verkfæri sem stuðla að jákvæðari hegðun barns. SMT-skólafærni (útfærsla á bandarísku aðferðinni positive Behavior Support/ PBS) byggir á hugmyndafræði PMTO.
SMT-skólafærni er hliðstæð aðferð og PMTO þar sem lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr hegðunarvanda með því m.a. að kenna og þjálfa félagsfærni, hvetja æskilega hegðun og samræma viðbrögð starfsfólks til að mæta ólíkum hópum nemenda með samrýmdum vinnubrögðum.
Skólar sem velja að innleiða ekki SMT – skólafærni hafa valið aðra viðurkennda aðferðafræði við agastjórnun og uppeldi s.s. Uppbyggingastefnuna, Jákvæðan aga eða annað.