Beint í efni

Vefur í vinnslu

Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is

Fjárhagsaðstoð

Fjárhagsaðstoð er veitt þegar við á samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Samkvæmt lögum ber einstaklingum skylda til að framfæra sjálfa sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Sveitarfélög hafa jafnframt skyldu til að veita íbúum sínum þjónustu og aðstoð sem hjálpar til við að leysa úr erfiðleikum eða koma í veg fyrir að þeir lendi í aðstæðum þar sem þeir geta ekki séð fyrir sér og sínum.

Velferðarráð Akureyrar hefur sett reglur um fjárhagsaðstoð sem starfsfólk velferðarsviðs fylgir í vinnslu umsókna. Ráðgjafar velferðarsviðs taka á móti umsóknum. Þar þurfa að koma fram upplýsingar um fjölskyldugerð, atvinnustöðu, húsnæði, tekjur, skuldir og eignir.

Ástæður fyrir umsókn um fjárhagsaðstoð geta verið mismunandi, svo sem lág laun, atvinnuleysi eða veikindi.

Hámarksfjárhæðir aðstoðar eru:

  • 248.092 á mánuði fyrir einstaklinga (með þinglýstan leigusamning).
  • 396.947 á mánuði fyrir hjón eða sambúðarfólk (með þinglýstan leigusamning).

Athugið að fjárhagsaðstoðin er óháð barnafjölda, þar sem gert er ráð fyrir að barnabætur, meðlög og barnalífeyrir dekki kostnað vegna barna. Á sama hátt mæta vaxtabætur og húsaleigubætur húsnæðiskostnaði.

Sérstakar aðstæður
Í undantekningartilfellum er heimilt að veita viðbótarstuðning vegna sérstakra aðstæðna í samræmi við IV. kafla reglna um fjárhagsaðstoð.

Ráðgjöf
Ráðgjöf vegna fjármála er veitt í tengslum við fjárhagsaðstoð þar sem þörf er á með það að markmiði að bæta fjárhagsstöðu umsækjenda.

Tekjur
Allar tekjur, hvort sem þær eru styrkir, lífeyrir, atvinnuleysisbætur eða laun, eru taldar með í útreikningum. Einu undantekningarnar eru umönnunarbætur foreldra fatlaðra barna. Þegar um launatekjur er að ræða er miðað við heildartekjur.

Nauðsynleg gögn með umsókn
Umsóknum má skila í þjónustugátt Akureyrarbæjar eða í viðtali við ráðgjafa velferðarsviðs. Umsækjendur þurfa að mæta með eftirfarandi gögn:

  • Staðfest skattframtal síðasta árs
  • Staðgreiðsluyfirlit frá yfirstandandi ári
  • Yfirlit yfir allar tekjur og greiðslur fyrir umsóknarmánuð og mánuðinn þar á undan, þ.m.t. greiðslur frá Tryggingastofnun, lífeyrissjóðum, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóðum stéttarfélaga og öðrum aðilum
  • Upplýsingar um skuldir og föst mánaðarleg útgjöld (t.d. greiðsluþjónusta)

Athugið
Allir styrkir, þar á meðal fjárhagsaðstoð, eru skattskyldir.

Nánari upplýsingar hjá velferðarsviði Akureyrarbæjar, Glerárgötu 26, sími 460 1000, velferdarsvid@akureyri.is. Afgreiðslutími er virka daga kl. 9-15.