Beint í efni

Vefur í vinnslu

Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is

Saga Akureyrar

Stiklað á stóru í sögu Akureyrar

Yfirlitsmynd af Akureyri

Frá fortíð til framtíðar

Akureyri fékk kaupstaðaréttindi árið 1862 en nafn bæjarins er dregið af kornakri sem menn halda fyrir víst að hafi verið í einu af giljum bæjarins. Allt frá öndverðri 19. öld hafa bæjarbúar verið þekktir fyrir áhuga á garðyrkju og bærinn annálaður fyrir gróðursæld. Kartöflurækt hófst á Akureyri rétt um aldamótin 1800 og tré uxu þar snemma og töldust til landsundra. Áhugi á garðrækt barst til bæjarins með dönskum verslunarmönnum sem þar ráku sín viðskipti.

Inn af Oddeyri var gott skjól fyrir kaupskip og héraðið fram í Eyjafirði þótti gott til landbúnaðar. Á seinni hluta 19. aldar bundust eyfirskir bændur samtökum til að gera hlut sinn betri gagnvart dönsku kaupmönnunum. Þá varð til Kaupfélag Eyfirðinga (KEA) sem alla 20. öldina setti mark sitt á Akureyri og stjórnaði miklu um uppbyggingu bæjarins.

Ýmis konar iðnaður, oftast tengdur landbúnaðarframleiðslu og iðulega rekinn í skjóli KEA, spilaði stórt hlutverk í atvinnulífi kaupstaðarins á 20. öld en fyrirtæki í sjávarútvegi náðu einnig að hasla sér þar völl.

Miklar breytingar urðu á atvinnulífi Akureyrar undir lok 20. aldar. Framleiðsluiðnaður lét þá undan síga og KEA dró verulega úr umsvifum sínum. Í kjölfarið urðu umsvif meiri í verslun og þjónustu, ferðaþjónustu og sjávarútvegi. Árið 1987 var Háskólinn á Akureyri stofnaður og hefur hann stækkað hratt og örugglega. Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) er stærsta sjúkrahús landsins utan höfuðborgarsvæðisins sem veitir almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu og er varasjúkrahús Landspítalans. Ýmis sprotafyrirtæki hafa haslað sér völl í bænum.

Árið 2004 sameinaðist Hríseyjarhreppur Akureyrarbæ og Grímseyjarhreppur árið 2009.