Vefur í vinnslu
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Móahverfi er nýtt íbúðahverfi í norðvesturhluta Akureyrar þar sem gert er ráð fyrir að byggðar verði allt að 1.100 íbúðir á næstu árum.
Hér má finna uppfærða greinargerð vegna deiliskipulags Móahverfis. Með deiliskipulagi er meginmarkmið Akureyrarbæjar að leggja grunninn að nýju og vönduðu íbúðahverfi með fjölbreyttum íbúðagerðum og grænum svæðum sem verður aðlaðandi til búsetu. Áhersla er lögð á góðar tengingar gangandi og hjólandi innan hverfis, við aðliggjandi hverfi og útivistarsvæði.
Hér má finna deiliskipulagsuppdrátt af Móahverfi - með þeim breytingum sem gerðar hafa verið. Viðfangsefni deiliskipulagsins er m.a. að afmarka íbúðarlóðir og byggingarreiti, skilgreina fyrirkomulag gatnakerfis, bílastæða, göngu- og hjólastíga og útivistar- og almenningssvæða.
Hér má finna þær lóðir sem eru í útboði hverju sinni
Hér má finna svör við helstu spurningum sem gætu vaknað varðandi Móahverfi
Gert er ráð fyrir að svæðið byggist upp með blöndu af fjölbýlishúsum og sérbýlishúsum. Byggð verður hæst og þéttust neðst á svæðinu nærst Borgarbraut og Síðubraut en eftir því sem byggð er fjær tengibrautunum og hærra í landi verður hún gisnari og lægri. Neðan safngötunnar Langamóa er byggð eingöngu í fjölbýlum en ofan Langamóa eru húsagerðir meira og minna sérbýli.
Hverfið mun byggjast upp með mismunandi íbúðastærðum í öllum húsagerðum, m.a. er gert ráð fyrir lóðum fyrir minni sérbýlishús en einnig sett ákvæði um ákveðið hlutfall stærri íbúða í fjölbýlishúsum. Lögð er áhersla á að íbúðir hafi dvalarsvæði (svalir eða sérafnotahluta) sem snúa vel við sólu eða til suðurs eða suðvesturs.
Á Akureyri eru 14-15% íbúa á grunnskólaaldri og því má gera ráð fyrir 290-360 börnum á grunnskólaaldri í hverfinu. Gert er ráð fyrir að uppbygging hverfisins hefjist úr suðri en það svæði er í um 400 m göngufjarlægð frá Síðuskóla. Í Síðuskóla er svigrúm fyrir fjölgun nemenda og því er gert ráð fyrir að Síðuskóli verði skóli hverfisins til að byrja með. Þá er mögulegt að Giljaskóli verði einnig nýttur sem skóli fyrir börn í hverfinu en göngufjarlægð frá suðurjaðri hverfisins að Giljaskóla er um 700 m. Skoðuð verður þörf fyrir nýjan grunnskóla í tengslum við deiliskipulag næsta áfanga hverfisins sem verður vestan Síðubrautar.
Leikskóli er fyrirhugaður vestan Síðuskóla skv. aðalskipulagi og því er ekki talin þörf á leikskóla innan hverfisins.
Uppbygging er þegar hafin á lóðum sem var úthlutað í 1. áfanga. Lóðir í 2. áfanga eru áætlaðar byggingarhæfar 1. júní 2025 en það gæti þó orðið seinna.
Mæliblöð fyrir lóðirnar má nálgast með því að sækja útboðsgögnin sem er fyrsta skrefið í að senda inn tilboð í byggingarrétt lóða. Ásamt mæliblaðinu má þar finna úthlutunarskilmála, sérákvæði, deiliskipulagsuppdrátt, greinargerð og fleira.
Eingöngu einstaklingar geta boðið í einbýlishúsalóðar og er litið á hjón/sambýlisfólk sem sama einstaklinginn (umsækjandann). Hver einstaklingur getur aðeins fengið byggingarrétt á einni lóð úthlutað hverju sinni.
Bæði einstaklingar og lögaðilar geta boðið í parhúsalóðir. Tveir einstaklingar þurfa sameiginlega að sækja um parhúsalóðir og er litið á hjón/sambýlisfólk sem sama einstaklinginn (umsækjandann).
Eingöngu lögaðilar geta boðið í raðhúsalóðir. Litið er á lögaðila með sömu eigendur og/eða stjórnunartengsl sem einn og sama aðilann.
Ef tilboð í lóðir eru jafnhá að þá ræður hlutkesti nema ef tilboð lögaðila og einstaklinga í parhúsalóð eru jafnhá að þá hefur umsókn einstaklinga forgang og fá þeir lóðina.
Leiðbeiningar um hvernig megi skila inn rafrænu tilboði má nálgast hér.
Ef sótt er um lóð sem er laus til úthlutunar skal skila eftirfarandi gögnum varðandi fjárhagsstöðu sína, fjármögnun lóðar og byggingaframkvæmda með umsókninni en ef lóðin er í útboði skal skila þeim innan 14 virkra daga frá tilkynningu Akureyrarbæjar um að tilboðsgjafi hafi verið hæstbjóðandi eða fengið lóð úthlutaða . Misbrestur á því leiðir til þess að lóðarumsókn verði hafnað. Heimilt er að framlengja framangreindan frest, að beiðni tilboðsgjafa, um allt að tvær vikur ef málefnalegar ástæður eru fyrir hendi að mati Akureyrarbæjar.
Einstaklingar skulu leggja fram eftirfarandi gögn:
Lögaðilar skulu leggja fram eftirtalin gögn:
Allar upplýsingar um gjöld og greiðslufresti er að finna í úthlutunarskilmálum lóðanna.