Vefur í vinnslu
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Hér er leitast við að svara algengustu spurningum varðandi byggingarleyfi en starfsfólk veitir líka fúslega faglegar ráðleggingar, bæði í viðtals- og símatímum sem hægt er að bóka með því að nota hlekkina hér að neðan:
Húseigendur og lóðarhafar eða umboðsmenn þeirra.
Umsókn er send inn til byggingarfulltrúa í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar.
Ef umsókn uppfyllir ekki ofangreind skilyrði er ekki tekið við henni. Umsóknin er yfirfarin af starfsmönnum byggingarfulltrúa og gengið úr skugga um að hún uppfylli ákvæði mannvirkjalaga, byggingarreglugerðar, skipulagsskilmála og annarra laga og reglna er málið varða. Einnig gæti verið þörf á að leita umsagnar og/eða samþykkis Slökkviliðs Akureyrar, Norðurorku, Umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar, Skipulagsráðs Akureyrarbæjar, Hafnasamlags Norðurlands, Brunamálastofnunar og Umhverfisstofnunar eftir því sem við á.
Byggingarfulltrúi afgreiðir allar umsóknir um byggingarleyfi. Ef sótt er um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir eða ef um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi er málið lagt fyrir skipulagsráð sem ákveður hvort grenndarkynna eigi málið. Grenndarkynning tekur minnst 4 vikur. Eftir yfirferð er umsókn lögð fyrir afgreiðslufund byggingarfulltrúa þar sem lagt er lokamat á hana. Að fundi loknum fá allir umsækjendur tilkynningu um afgreiðslu málsins.
Þeir sem hafa skilað inn ófullnægjandi umsóknum fá rökstuðning fyrir því hvers vegna umsókn var ekki samþykkt og gefst þá kostur á að lagfæra hana. Umsókn sem hefur verið lagfærð fær sömu meðferð og ný umsókn og henni þarf að skila inn í síðasta lagi fyrir hádegi á þriðjudegi fyrir fund. Því líður hið minnsta vika á milli
þess sem umsókn er tekin til umfjöllunar. Greiða þarf gjald vegna hverrar endurskoðunar aðaluppdrátta. Ef umsókn er synjað getur umsækjandi kært niðurstöðuna til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Byggingarfulltrúi leiðbeinir umsækjanda um kæruleið og kærufrest. Úrskurður nefndarinnar er fullnaðarúrskurður á
stjórnsýslustigi.
Þegar byggingarfulltrúi hefur samþykkt byggingaráform gefur hann út formlegt byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum og geta þá framkvæmdir hafist.
Skilyrðin eru þessi:
Með fyrirspurnum getur húseigandi eða lóðarhafi kannað hvort leyfi muni fást fyrir tiltekinni framkvæmd, án þess að leggja fram fullnaðaruppdrætti. Sé svar byggingaryfirvalda jákvætt getur umsækjandi fylgt málinu eftir með byggingarleyfisumsókn. Fyrirspurnir eru lagðar fyrir á vikulegum afgreiðslufundum og er öllum svarað skriflega.
Umsókn sem ekki hefur verið afgreidd vegna athugasemda og ekki fylgt eftir af hálfu umsækjanda í sex mánuði verður endursend umsækjanda ásamt öllum gögnum er umsókninni fylgdu.
Embætti byggingarfulltrúa er starfrækt samkvæmt mannvirkjalögum 160/2010 og reglugerðum þeim tengdum. Óheimilt er samkvæmt mannvirkjalögum að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarvirki þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa sbr. þó gr. 2.3.5 í byggingarreglugerð. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Samþykkt byggingarfulltrúa felur í sér samþykkt aðaluppdrátta og byggingaráforma eða samþykkt á breyttri notkun húss.
Auk útgáfu byggingarleyfa annast embættið yfirferð og samþykkt séruppdrátta, úttektir, skráningu byggingarstjóra og iðnmeistara á verk, fasteignaskráningu, landupplýsingakerfi Akureyrar LUKA, yfirferð eignaskiptayfirlýsinga, útgáfu lóðarsamninga og gefur umsagnir vegna starfs-, gisti- og veitingaleyfa. Þá varðveitir embætti bygginarfulltrúa uppdrætti af flest öllum húsum á Akureyri og geta allir fengið ljósrit af þeim eða nálgast þá rafrænt í kortasjá.
Við lóðarúthlutun er lagt á gatnagerðargjald skv. gjaldskrá bæjarins hverju sinni.
Gatnagerðargjaldið er lagt á með 30 daga gjaldfresti, sjá gjaldskrá. Gatnagerðargjald - stofn gatnagerðargjalds er það byggingarmagn sem heimilað er á lóðinni skv. skipulagi. Sem dæmi ef heimilað er að byggja 250 fermetra hús á lóð þá þarf umsækjandi að greiða fyrir það byggingarmagn þrátt fyrir að hann hafi hugsað sér að byggja minna hús.
Frá úthlutun fær umsækjandi 9 mánuði til að hefja framkvæmdir og þar af 8 mánuði til að leggja inn teikningar. Sjá alm. byggingarskilmála.
Ef lóð er auglýst með fyrirvara um byggingarhæfi þýðir það að lóðin er ekki tilbúin til að hefja á henni framkvæmdir. Þá er við úthlutun lagður á helmingur gatnagerðargjalda og síðari hlutinn þegar lóðin verður byggingarhæf og frá þeim tíma byrjar teikni- og framkvæmdafrestur að telja.
Byggingargjald er lagt á í tengslum við samþykkt á teikningum/byggingaráformum, sjá gjaldskrá.
Bílastæðagjald er lagt á í tengslum við samþykkt á byggingaráformum, ef ekki er hægt að koma tilskyldum fjölda bílastæða innan lóðarinnar, sjá gjaldskrá.
Útmæling fyrir húsi er lagt á í tengslum við samþykkt á teikningum/byggingaráformum, sjá gjaldskrá.
Lóðarsamningur nýrrar lóðar er gerður þegar öll gjöld hafa verið greidd að fullu eða um þau samið við bæjarsjóð og byggingaráform hafi verið samþykkt sjá gjaldskrá.
Ef um fjöleignarhús er að ræða þarf jafnframt að gera eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið, sjá gjaldskrá.
Framsal byggingarréttar til þriðja aðila er ekki heimilt fyrr en lóðarleigusamningur hefur verið gefinn út og lokið hafi verið við að steypa sökkla viðkomandi húss.
Athugið að Norðurorka innheimtir öll veitugjöld, www.nordurorka.is.