Vefur í vinnslu
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Rætt var um Sumartóna. Velt vöngum yfir hvaða tónlistaratriði ráðið myndi vilja fá, bæði upphitunar- og aðalatriði.
Fyrir upphitunaratriði var Skandal, Akureyrsk hljómsveit fyrir valinu og fyrir aðalatriði voru Auddi&Sveppi, Iceguys og Laddi í efstu sætum. Almar og Kristín Sóley fengu hugmyndirnar sendar til að vinna áfram.
Gengið var frá hlutverkaskiptum, Heimir og París verða kynnar og aðrir fulltrúar ráðsins sjá um að vísa gestum til sætis og dyravörslu.
Fyrsti undirbúningur fyrir bæjarstjórnarfund unga fólksins. Dagsetning var ákveðin, 21. mars nk., fulltrúar ræddu um tillögur að málefnum og ákveðið var að Felix yrði í hlutverki fundarstjóra, þ.e. forseti bæjarstjórnar.
Rætt var um mikilvægi þess að fylgja málum eftir og ganga úr skugga um að þau færu í réttan farveg.
Rætt var um næstu skref varðandi gátlistann fyrir barnvænt hagsmunamat. Ungmennaráð telur breytinguna, þ.e. að fræðslu- og lýðheilsuráð hafi tekið upp gátlistann, afar jákvæða.
Ungmennaráð finnur fyrir jákvæðum breytingum á bæði fjölda og eðli mála sem það fær til umsagnar. Aftur á móti er greinilegt að skerpa þurfi á öðrum leiðum til að eiga samráð við börn, öðrum en að senda málin eingöngu til ungmennaráðs, og minna á möguleikann að vinna það fyrr í ferli mála, jafnvel áður en þau eru tekin fyrir á fundum fræðslu- og lýðheilsuráðs.
Ungmennaráð sér ekkert því til fyrirstöðu að önnur ráð bæjarins geti tekið upp barnvænt hagsmunamat á sínum fundum, með aðstoð frá t.d. fulltrúum ráðsins á fyrstu fundum og vill að það innleiðingarferli fari sem fyrst af stað. Ráðið felur umsjónarmanni ráðsins að vinna það áfram.
Rætt um verkefnið þegar ungmennaráði var boðið á samráðsfund í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar Akureyrarbæjar í júní 2023. Ráðið sendi frá sér bókun um málið.
Þá nefndi umsjónarmaður að Marín Rós verkefnastjóri þekkingarmiðlunar hjá UNICEF hefði haft samband og vildi kynna verkefni sem hún hefur unnið í tengslum við barnvæn fjármál. Ungmennaráðið sýndi því mikinn áhuga og hlakkar til að heyra hvernig þeir fundir fara og hvort úr verði hugsanlegt samstarf í framhaldi.
Ungmennaráði var boðið á samráðsfund í júní 2023 varðandi fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar. Ráðið setti fram ítarlega kynningu og listaði upp í yfirgripsmiklu Excel skjali þeirra áherslur. Ungmennaráð harmar að eftir þann fund hafi ekkert heyrst frá þeim aðilum er sátu fundinn varðandi hvort og þá hvernig horft hafi verið til tillaga ráðsins við gerð fjárhagsáætlunarinnar.
Rætt var um eftirfylgni mála sem ungmennaráð hefur aðkomu að, þá t.d. í tengslum við bæjarstjórnarfund unga fólksins, samráðsfund fyrir gerð fjárhagsáætlunar bæjarins og annarra mála sem ráðið fær inn á sitt borð. Ítrekað var að ráðið sjálft getur bæði ýtt á eftir málum og kallað eftir svörum um stöðu þeirra, sem og að ráðið á rétt á að vera upplýst um hvernig mál er þau varðar eru unnin áfram.
Þá var rætt um hvernig málin standa varðandi tengslamyndum við nemendaráð grunnskólanna. Ungmennaráð hefur fengið svör frá þremur grunnskólum og fyrirhugaðir eru fundir með þeim á næstu dögum.
Rætt var stuttlega um fyrirhugaðar kosningar næsta vor. Hugmyndir um lýðræðisleg kosningaform voru viðraðar, rætt var um kynningar inn í skóla og uppfærslu á kynningarmyndböndum. Viðfangsefnið verður tekið upp aftur á næstu fundum ráðsins.