Vefur í vinnslu
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Heimir Sigurpáll Árnason fjallaði um mikilvægi ungmennaráðs í sveitarfélaginu og þess að hlustað sé á raddir barna. Mikilvægt er að gagnkvæmt traust ríki og með því er hægt að vinna að því að Akureyrarbær verði sveitarfélag þar sem ungt fólk býr og hefur raunveruleg áhrif.
Hilda Jana Gísladóttir brást við f.h. bæjarstjórnar. Svo kjörnir fulltrúar geti unnið sem best fyrir sveitarfélagið er mikilvægt að setja sig í spor sem flestra íbúa. Þannig er líka mikilvægt fyrir ungmennaráð að setja sig í spor annarra ungmenna sérstaklegra þeirra sem jaðarsettir eru. Mikilvægt að geta átt samtal og útfæra hugmyndir í samstarfi.
Lilja Dögun Lúðvíksdóttir fjallaði um mikilvægi þess að huga að andlegri heilsu ungmenna og mikilvægi þess að Akureyrarbær sé að bjóða upp á viðunandi þjónustu á þessu sviði. Börnum og ungmennum finnst vanta skólasálfræðinga í grunnskóla. Lilja taldi nauðsynlegt að auka aðgengi að námsráðgjöfum innan skólanna. Mikilvægt er að kynna þau úrræði sem í boði eru og fræða foreldra og kennara um andlega líðan barna og ungmenna.
Hulda Elma Eysteinsdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar, þakkaði fyrir áminningu um mikilvægi geðheilbrigðis og að setja þetta málefni á dagskrá. Tók undir það að geðheilbrigði er mjög mikilvæg. Ekki hefur gengið nægilega vel að ráða sálfræðinga inn í grunnskólana en spurning um hvort það sé kominn tími á að láta reyna á það aftur. Á árum áður voru þessi mál sjaldan eða aldrei rædd og fagnaði hún að umræðan sé komin lengra nú. Mikilvægt er að huga að því að minnka skjátíma barna. Fjölbreytt forvarnarstarf er mikilvægt.
Til máls tók París Anna Bergmann Elvarsdóttir og benti á að mikilvægt er að beina umræðunni að lausnum frekar en hindrunum. Þrátt fyrir að það vanti sálfræðinga er hægt að reyna að bæta þjónustu og stuðning með öðrum leiðum.
Íris Ósk Sverrisdóttir ræddi um einelti og ofbeldi meðal ungmenna og hvernig á að taka á þessum málum. Börn og ungmenni kvarta mikið yfir því að ekki er tekið almennilega á flestum málum sem tengjast einelti. Íris velti upp spurningunni hvernig við sem samfélag getum breytt þessu. Til dæmis væri hægt að gera eineltisstefnu sýnilegri fyrir ungmenni og foreldra. Einnig væri hægt að hafa námskeið fyrir starfsfólk skóla og fræðslu fyrir ungmenni.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar, þakkaði fyrir að þetta mál hafi verið sett á dagskrá. Lýsti áhyggjum yfir því að ungmenni telji sig þurfa að fara að ganga um með hnífa vegna aukins ofbeldis. Samfélagslögregla á að sinna forvörnum og vera sýnileg og mun vonandi bregðast við ósk um fræðslu til ungmenna. Við þurfum öll að bregðast við. Í haust var stofnaður samstarfsvettvangur gegn ofbeldi.
París Anna Bergmann Elvarsdóttir fjallaði um skólamat í grunnskólum og mikilvægi þess að allir nemendur hafi aðgang að næringarríkum og góðum mat. París benti á að á málþingi ungmenna í janúar sl. var eitt stærsta umræðuefnið skólamatur. Það þarf að auka fjölbreytni, bæta gæði matarins, hlusta á nemendur og taka tillit til þeirra og minnka matarsóun. Til þess að börn hafi kraft og getu til að læra og njóta skólagöngu sinnar verður að tryggja að þau fái mat sem þau vilja og geta borðað.
Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar, þakkaði fyrir að þetta mál væri sett á dagskrá. Bæjarfulltrúi vonaði að þetta mál yrði tekið alvarlega. Börnum með óþol má ekki líða eins og þeim sé gleymt. Það þarf að taka umræðuna alvarlega og hvatti Jana fræðslu- og lýðheilsuráð til að taka málið föstum tökum. Mikilvægt að taka gagnrýninni alvarlega og vinna með hana í framhaldinu.
Rebekka Rut Birgisdóttir fjallaði um símareglurnar sem settar voru í skólum bæjarins og hvernig gengur að fara eftir þeim. Misjafnt er eftir skólum hvort og hvernig reglum um síma er fylgt. Sumir kennarar fylgja ekki símareglum sjálfir og það er ósanngjarnt að ætlast sé til þess að nemendur leggi frá sér símana þegar kennarar eru sjálfir í símanum í kennslustund. Reglurnar þurfa að vera skýrari og sanngjarnari og samræma þarf framkvæmd í öllum skólunum.
Heimir Örn Árnason bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir afar góða yfirferð. Þetta eru ekki gallalausar reglur og tók ungmennaráðsfulltrúi þátt í því að móta reglurnar. Þau sem komu að mótun reglnanna töldu að það gæti tekið um 3-4 ár fyrir reglurnar að fara að virka. Kennarar og starfsfólk skóla eru almennt ánægðir með símafrí og sjá breytingu í hegðun nemenda. Hann taldi að eftir 3-4 ár verði sveitarfélagið mjög ánægt með þessar reglur. Þessar reglur hafa vakið jákvæða athygli.
Til máls tók París Anna Bergmann Elvarsdóttir og sagði að það þyrfti að bregðast strax við umkvörtunum nemenda um að kennarar teldu sig þurfa að fylgja öðrum reglum. Hvernig er verið að meta þetta símafrí og hvernig er lagt mat á þær upplýsingar sem fengnar eru. Það ætti að spyrja nemendur hvernig þau eru að upplifa reglur um símafrí.
Til máls tók Heimir Örn Árnason bæjarfulltrúi og sagði að hann vonaði að tekið væri á því að kennarar og stuðningsfulltrúar væru í símanum þegar þau eiga ekki að vera í símanum.
Til máls tók Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi. Sagði að það væri glatað að kennarar og starfsfólk væri ekki að fylgja þessum reglum og mikilvægt að kennarar sýni gott fordæmi.
Leyla Ósk Jónsdóttir fjallaði um þarfir nemenda í Hlíðarskóla hvað varðar húsnæði, aðbúnað og útisvæði. Beðið hefur verið um stærri rými fyrir skólastofur og stendur skólinn frammi fyrir alvarlegum húsnæðisskorti. Með því að hafa skólann í einu stærra húsnæði sem sameinar alla starfsemi skólans í einni byggingu. Hlíðarskóla vantar líka öruggan leikvöll. Auk þess hafa nemendur skólans bent á að það vanti fleiri tæki í líkamsræktarherbergið sem er í skólanum.
Heimir Örn Árnason bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar. Varðandi stærra rými; ekki langt síðan skólinn var tekinn í gegn og erfitt að setja allar byggingarnar saman. Hins vegar hefur verið talað um að stækka skólann og taka við fleiri nemendum en einn af kostum skólans er þó hversu fámennur hann er. Fræðslu- og lýðheilsuráð mun fjalla um mál Hlíðarskóla.
Til máls tók Heimir Sigurpáll Árnason og taldi hann að stækkun á húsnæðinu væri mikilvæg.
Til máls tók París Anna Bergmann Elvarsdóttir og benti á að rannsóknir sýna að græn útivistarsvæði hafa jákvæð áhrif á nemendur almennt.
Til máls tók Fríða Björg Tómasdóttir og benti á að öll börn eru jöfn. Benti á að skólalóðin við Hlíðarskóla er mjög sorgleg.
Til máls tók Leyla Ósk Jónsdóttir og vonaði að bæjarfulltrúar taki málið alvarlega og skoði vel.
Til máls tók Heimir Sigurpáll Árnason og benti á að gervigrasvöllur við Hlíðarskóla væri mjög gott skref en að það væri vonandi ekki síðasta skrefið sem væri tekið.
Til máls tók Heimir Örn Árnason bæjarfulltrúi. Inni á framkvæmdaáætlun eru búið að áætla 10 milljónir til skólalóðar Hlíðarskóla og það er ákvörðun skólans um hvað peningarnir eru notaðir í.
Ólöf Berglind Guðnadóttir ræddi um mikilvægi félagsmiðstöðva og hvernig við getum eflt þær þannig að þær þjóni betur ungmennum í samfélaginu okkar. Félagsmiðstöðvar eru mikilvægur vettvangur fyrir félagslega og persónulega þróun ungs fólks. Ein stærsta áskorunin sem félagsmiðstöðvar standa frammi fyrir er aðstöðuleysi; takmarkað rými, skortur á fjármagni og úreltur búnaður. Nauðsynlegt er að styrkja félagsmiðstöðvar svo að þær geti betur þjónað ungmennum sveitarfélagsins.
Jón Hjaltason bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar. Benti á að stundum ganga hlutirnir hægt fyrir sig þó að hlutirnir geti litið þannig út að einfalt ætti að vera að laga þá. Það sem skiptir máli er að ná saman. Það eru öfl í heiminum sem reyna að einangra okkur. Félagsmiðstöðvar eru mikilvæg tól til að draga okkur inn í samfélagið aftur. Velti fyrir sér hvort unnt væri að nýta grunnskólana eftir klukkan 16 fyrir félagsmiðstöðvar og þannig nýta rýmið sem til staðar er. Það þarf að gera betur og þetta verður rætt í fræðsluráði og vonandi mun verða ráðið bót á þessu.
Til máls tók Heimir Sigurpáll Árnason. Nefndi hann strák sem leið alltaf mjög illa og fann sig aldrei þar til hann byrjaði að mæta í félagsmiðstöðvarnar á Akureyri og hann fann fólk sem skildi hann og hlustaði. Þetta snýst ekki bara um peninga heldur virkilega um hvernig krökkunum líður.
Lára Halldóra Eiríksdóttir bæjarfulltrúi tók til máls og þakkaði fyrir umræður um félagsmiðstöðvar. Tók undir með Ólöfu og Heimi um að þetta er mjög mikilvægt starf sem þarna fer fram. Þurfum að horfa til þess hverjir það eru sem eru að leita til félagsmiðstöðvanna, það eru kannski þau sem eru félagslega sterk fyrir. Þurfum að finna leiðir til að virkja þau sem standa ekki jafn vel að vígi. Kannski þarf að hugsa félagsmiðstöðvarnar upp á nýtt. Tók heilshugar undir það að efla þurfti félagsmiðstöðvastarf í sveitarfélaginu.
París Anna Bergmann Elvarsdóttir fór yfir mikilvægi þess að auka starfsemi á miðstigi í félagsmiðstöðvum Akureyrar með auknum opnunartíma og meiri þjónustu við börn á miðstigi. Opnunartíminn núna er á mjög óhentugum tíma og stór hluti ungmenna hefur ekki raunhæfan möguleika á að mæta. Þó að það séu bara nokkrir krakkar sem mæta þá á það ekki að skipta máli því að stuðningur við hvert ungmenni sem þarf á því að halda skiptir alltaf máli. Það þarf að tryggja nægjanlega og góða aðstöðu. Börnin eru ekki bara framtíðin heldur líka nútíðin.
Lára Halldóra Eiríksdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar. Vakti athygli á því að ekki væri nóg að það sé opið einn dag í viku í félagsmiðstöð. Um opnunartímann sagði bæjarfulltrúi að íþróttaæfingar og aðrar tómstundir eru á öllum tíma og enginn tími sem er fullkominn fyrir starfsemi félagsmiðstöðva. Sá tími sem er núna var valinn til að fá samfellu í dag ungmenna. Lára ítrekar að hún telur að það þurfi að skoða félagsmiðstöðvar upp á nýtt og hvernig eigi að haga starfi innan þeirra og efla. Ef sveitarfélaginu er alvara að halda utan um ungmenni þá þarf að efla félagsmiðstöðvar.
Til máls tók París Anna Bergmann Elvarsdóttir og þakkaði Láru Halldóru fyrir svarið. Spurði af hverju það væri ekki prófað að breyta opnunartímanum ef nemendur væru að kalla eftir því.
Til máls tók Lára Halldóra Eiríksdóttir bæjarfulltrúi og tók heilshugar undir að við vitum ekki nema að prófa. Benti á að það væri ekki pólitísk ákvörðun. Starfsfólk félagsmiðstöðva er treyst fyrir því að skipuleggja starfið.
Til máls tók Sunna Hlín Jóhannesdóttir og benti á að við verðum að huga betur að miðstiginu.
Til máls tók París Anna Bergmann Elvarsdóttir og benti á að starfsfólk félagsmiðstöðva hefur óskað eftir frekara fjármagni en var synjað.
Til máls tók Heimir Sigurpáll Árnason og benti á þær félagsmiðstöðvar sem eru til staðar í sveitarfélaginu. Til dæmis ein í Hrísey sem vantar líka aukið fjármagn.
Aldís Ósk Arnaldsdóttir ræddi mikilvægi þess að bæta strætósamgöngur í sveitarfélaginu sérstaklega með þarfir barna, ungmenna og umhverfisins í huga. Það vantar fleiri strætóferðir um helgar. Mikilvægt er að tryggja að strætó sé á réttum tíma. Það verður að horfa til framtíðar og fjárfesta í rafmagnsstrætóum. Mikilvægt er að virðing sé borin fyrir farþegum og að þau fái þá þjónustu sem þeim ber óháð aldri, fötlun eða öðrum aðstæðum. Öll börn eru jöfn og eiga rétt á að ferðast örugglega og af virðingu.
Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir að þetta mál væri sett á dagskrá. Hrósaði Akureyrarbæ fyrir að það væri búið að vera ókeypis í strætó síðan árið 2006. Benti á að verið væri að færa jöfnunarstöð strætó og það hefur áhrif á áreiðanleika og hversu gott leiðanetið er. Varðandi fleiri ferðir um helgar þá er það spurning um fjármagn og hingað til hefur ekki verið vilji til þess að auka fjármagnið. Það að fá fleiri rafmagnsstrætóa þýðir að það þurfi að gera stefnumörkun til framtíðar um hvað við ætlum að gera með strætóflotann því metan er einnig til skoðunar. Ef metanið gengur ekki þá er rafmagnið klárlega framtíðin. Mikilvægt að tekið sé á því ef ekki er borin virðing fyrir ungmennum sem nota strætó.
Bjarki Orrason fjallaði um Hlíðarfjall og færði rök fyrir því af hverju bæta eigi aðstöðu Skíðafélags Akureyrar í Hlíðarfjalli. Aðstaða fyrir iðkendur til að skipta yfir í skíðabúnaðinn er ekki nógu góð. Bæta þarf og stækka rými fyrir iðkendur. Rýmið þyrfti að vera vel loftræst, með gúmmímottum á gólfinu til að koma í veg fyrir hálku. Einnig væri hægt að huga að huggulegri aðstöðu í Strýtuskálanum með sófum þar sem hægt væri að bíða þegar lyftur stöðvast vegna veðurs.
Hulda Elma Eysteinsdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar. Þakkaði fyrir yfirferð Bjarka og tók undir orð hans. Benti á að þegar nýja vélaskemman verður tekin í notkun gætu skíðaiðkendur mögulega fengið aðgengi og afnot af hluta gömlu vélageymslunnar. Telur að það sé mikilvægt að taka samtal við stjórnina og finna lausnir. Mikilvægt að öryggisnet séu til staðar. Mikilvægt að svæðið sé aðlaðandi fyrir skíðakrakkanna svo að þá langi að æfa í Hlíðarfjalli.
Sigmundur Logi Þórðarson fjallaði um mikilvægi þess að bæta opnunartíma Hlíðarfjalls og tryggja almenningssamgöngur upp í fjallið. Núverandi opnunartími er alltof takmarkandi, sérstaklega fyrir þau sem stunda skóla eða vinnu. Með lengri opnunartíma myndi aðsókn í fjallið aukast. Annað stórt vandamál er að komast upp í fjallið, með því að hafa strætó eða rútu væri hægt að draga úr notkun einkabílsins og þar með svifryki. Strætó í fjallið myndi auka aðgengi fyrir öll. Þetta myndi tryggja aukna aðsókn og minni mengun.
Heimir Örn Árnason bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir gott erindi. Benti á að þetta hefur verið rætt og snýst því miður um peninga. Hlíðarfjall er rekið með miklum halla. Ekki nægilega markvissar tekjur af rútum sem hafa verið að keyra upp í fjall. Vert að kanna aftur hvort hægt er að fá rútur til að keyra í fjallið.
Til máls tók Bjarki Orrason. Benti á að það væri búið að vera ágætlega oft opið í fjallinu þrátt fyrir slæman vetur og ekkert sem kemur í veg fyrir að það myndi ganga upp að hafa rútu í fjallið. Óskaði frekari útskýringa frá bæjarfulltrúa Heimi Erni Árnasyni.
Til máls tók Heimir Örn Árnason og útskýrði að þetta snerist um rútufyrirtækið sem sá ekki hag sinn í að keyra upp í fjall þannig að það þyrfti að skoða hvort bærinn myndi taka að sér niðurgreiðslu rútuferða.
Til máls tók París Anna Bergmann Elvarsdóttir og ítrekaði mikilvægi þess að hafa góðar almenningssamgöngur í fjallið.
Til máls tók Heimir Sigurpáll Árnason og hvatti bæjarstjórn til að skoða samstarf við rútufyrirtæki til að tryggja almenningssamgöngur í fjallið.
Fríða Björg Tómasdóttir fjallaði um mikilvægi þess að setja upp handrið í Gilinu til þess að auka öryggi gangandi vegfarenda. Gangstéttin ofar í gilinu er ekki með hita og því getur orðið hættulegt að fara þessa leið að vetri til. Fríða spurði hvort slíkt handrið hafi verið á áætlun bæjarins og ef já hvað varð um þá hugmynd. Handrið myndi auka öryggi vegfaranda og sem heilsueflandi samfélag ætti að tryggja að íbúar geti gengið um bæinn á öruggan hátt. Óskaði eftir því að slík handrið yrðu sett á framkvæmdaáætlun og að fjármagn verði tryggt.
Halla Björk Reynisdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir erindið og að vakin væri athygli á þessu máli. Halla Björk var búin að kanna málið fyrir fundinn og samkvæmt starfsfólki umhverfis- og mannvirkjasviðs þá hefur slíkt handrið ekki verið á áætlun en svo sannarlega tilefni til þess núna að koma þessu á áætlun. Sammála því að það þurfi að byrgja bruninn áður en barnið fellur í hann.
Að lokum þakkaði Halla Björk Reynisdóttir öllum fundarmönnum fyrir góða þátttöku og fyrir að vekja athygli á mikilvægum málefnum. Mikilvægt að fá áminningu um þau mál sem bæjarfulltrúar eiga það til að gleyma. Fundargerðin mun vera send til bæjarrráðs sem sendir svo mál áfram á viðeigandi ráð.
Til máls tók Hilda Jana Gísladóttir og vildi ræða hvað gerist næst. Misjafnt hefur verið hversu vel málum hefur verið fylgt eftir. Vildi leggja fram hugmynd um að þetta yrði gert öðruvísi núna. Í fyrsta lagi væri áhugavert að heyra frá ungmennaráði hvernig þau myndu forgangsraða þeim málefnum sem hefur verið fjallað um á fundinum. Hilda Jana myndi vilja leggja til að öllum málum nema kannski 2 að þegar þeim er vísað inn í viðeigandi ráð að það starfsfólk sem eru umsjónarmenn með þeim tiltekna málaflokki sem um ræðir (til dæmis matráðar um skólamat) þannig væri hægt að fá nánari útfærslu á hvað hlutirnir kosta og hvernig er hægt að breyta þeim. Finna út hvað hlutirnir kosta, til dæmis að hafa opið lengur í Hlíðarfjalli einn dag. Hægt að fá einhver viðbrögð frá þeim sem starfa til dæmis í félagsmiðstöðvum. Ef að ungmennaráð vill fá betri svör þá verður að breyta verklaginu. Vill reyna að ýta við því að fá einhverjar útfærslur, kostnaðarmat eða hugmyndir til þess að geta tekið samtalið áfram.