Vefur í vinnslu
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Anna Elísa Hreiðarsdóttir lektor við HA kynnti fyrstu niðurstöður rannsóknar sem hún og Svava Björg Mörk lektor við HÍ gerðu á starfsumhverfi í leikskólum í kjölfar gjaldskrárbreytinga sem urðu 1. janúar 2024 hjá Akureyrarbæ. Þær fólu í sér 6 gjaldfrjálsa tíma. Rannsóknin náði líka til Kópavogsbæjar sem gerði svipaðar breytingar.
Erna Rós Ingvarsdóttir verkefnastjóri leikskóla og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Meirihluti bæjarráðs fagnar útkomu rannsóknar Önnu Elísu Hreiðarsdóttir lektors við HA og Svövu Bjargar Mörk lektors við HÍ sem þær gerðu á starfsumhverfi í leikskólum í kjölfar gjaldskrárbreytinga sem varð 1. janúar 2024 hjá Akureyrarbæ, sem fól í sér sex gjaldfrjálsa tíma. Við munum halda áfram að þróa gjaldskrárbreytingar í leikskólum en teljum þetta hafi verið afar góða breytingu og jákvæða þróun í starfsumhverfi í leikskólum á Akureyri bæði fyrir starfsfólk og börn.
Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Ásrún Ýr Gestsdóttir V-lista óska bókað:
Mikilvægi rannsókna eru ótvíræð og ánægjulegt að fá kynningu á niðurstöðum á viðhorfum starfsfólks leikskóla til kerfisbreytinga á leikskólakerfinu á Akureyri. Niðurstöðurnar eru í samræmi við það sem lagt var upp með. Starfsfólk leikskóla er almennt jákvætt til breytinganna, meta m.a. að áhrifin fyrir börn séu jákvæð og að starfsaðstæður þeirra séu betri og að þeim líði betur.
Það er hins vegar áhyggjuefni að enn sem komið er séu ekki líka rannsökuð áhrif breytinganna á foreldra, enda erfitt að aðskilja velferð barna og fjölskyldna þeirra. Jafnréttisstofa hefur lagt áherslu á að meta þurfi áhrifin á ólíka hópa foreldra t.d. út frá kynjasjónarmiði, þjóðerni, hvort að um sé að ræða einstæða foreldra eða foreldra í sambúð. Til þess að tryggja jákvæða heildarniðurstöðu til framtíðar, sátt og stöðugleika, er mikilvægt að horfa einnig til þess og meta hvort og þá hvernig hægt sé að koma til móts við ólíka hópa.
Lögð fram greining og tillögur til bæjarráðs vegna uppbyggingar á lífsgæðakjarna fyrir eldri borgara.
Hulda Sif Hermannsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Karl Erlendsson formaður Félags eldri borgara á Akureyri og Brynjólfur Ingvarsson fulltrúi í öldungaráði sátu fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð telur það forgangsverkefni að lífsgæðakjarni fyrir eldri borgara verði að veruleika og vísar því málinu til skipulagsráðs. Bæjarráð telur mikilvægt að lífsgæðakjarni verði hluti af aðalskipulagi sveitarfélagsins og verði á starfsáætlun skipulagsráðs árið 2025. Bæjarráð hyggst taka málið aftur til umræðu í janúar 2025 og meta með hvaða hætti best sé að fylgja málinu eftir, þannig að sem mestar líkur séu á því að lífsgæðakjarni verði að veruleika eins fljótt og auðið er.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista óskar bókað:
Það er gott að fá þessa skýrslu sem er góð grunnvinna fyrir framhaldið. Það er heilmikil vinna eftir til að koma þessu verkefni á koppinn sem krefst náins samstarfs við ríkið og uppbyggingaraðila og mikilvægt að formfesta framhaldið og halda vinnu vinnuhópsins áfram.
Svandís Hlín Karlsdóttir framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunar hjá Landsneti og Hlín Benediktsdóttir forstöðumaður verkundirbúnings og hönnunar hjá Landsneti mættu til fundar til að ræða um samkomulag og skipulagsmál vegna Blöndulínu 3.
Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi sat fund bæjarráðs undir þessum lið. Þá sátu bæjarfulltrúarnir Halla Björk Reynisdóttir, Andri Teitsson og Lára Halldóra Eiríksdóttir undir þessum lið í gegnum fjarfundarbúnað.
Bæjarráð þakkar Svandísi Hlín Karlsdóttur framkvæmdastjóra viðskipta- og kerfisþróunar og Hlín Benediktsdóttur forstöðumanni verkundirbúnings og hönnunar hjá Landsneti fyrir komuna á fundinn.
Lagt fram til kynningar níu mánaða rekstraryfirlit Akureyrarbæjar.
Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Unnið að gerð fjárhagsáætlunar.
Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Erindi dagsett 25. október 2024 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um bókun frá stjórnarfundi Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga 22. október þar sem lýst er yfir þungum áhyggjum af áhrifum mögulegs loðnubrests á íslenskt efnahagslíf.
Bæjarráð tekur undir bókun Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga frá 22. október sl.
Lögð fram til kynningar fundargerð 238. fundar Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra sem var haldinn miðvikudaginn 16. október sl.