Vefur í vinnslu
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Lögð fram í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga tillaga að lýsingu fyrir breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018 - 2030 vegna endurskoðunar á stígakerfi innan sveitarfélagsins. Markmið skipulagsvinnunnar er að setja fram heildar stefnumörkun um stígakerfi Akureyrar.
Á fundinn mætti Anna Kristín Guðmundsdóttir frá Teiknistofu Norðurlands og kynnti verkefnið, núverandi stöðu og næstu skref.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að lýsingin verði samþykkt og skipulagssviði falið að kynna hana samkvæmt 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga.
Lögð fram að lokinni auglýsingu tillaga að breytingu á deiliskipulagi Giljahverfis. Í breytingunni felst að aðkomu að Giljaskóla og bílastæðum innan lóðar er breytt til að bæta umferðarflæði og auka öryggi. Tillagan var auglýst frá 10. janúar til 21. febrúar 2018 og barst ein athugasemd, frá skólastjóra og deildarstjóra sérdeildar Giljaskóla. Er þar óskað eftir að rýnt verði betur í deiliskipulagið m.t.t. þarfa þeirra sem eru í hjólastólum.
Afgreiðslu er frestað og málinu vísað til umsagnar umhverfis- og mannvirkjasviðs.
Lögð fram að lokinni grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga, tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem nær til lóðanna Goðaness 5 og 7. Í breytingunni felst að nýtingarhlutfall verður 0,320 í stað 0,300, að sameiginleg innkeyrsla verði fyrir lóðirnar og að hæðarkótum verði breytt og húsin stölluð. Engar athugasemdir bárust við grenndarkynningu.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt og að sviðsstjóra skipulagssviðs verði falið að sjá um gildistöku hennar.
Lögð fram tillaga að breytingu á skilmálum deiliskipulags Hagahverfis dagsett 22. október 2018. Er um að ræða tillögu að breytingu á skilmálum sem varða ákvæði í kafla 3.3.8 um bílastæðafjölda, ákvæði í kafla 3.3.1 um staðsetningu svefnherbergja við svalaganga, ákvæði í kafla 3.25 um frágang lóða og að lokum ákvæði í kafla 3.3.1 um lóðarfrágang. Er gert ráð fyrir að tillögurnar gildi eingöngu um lóðir sem ekki er búið að úthluta.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að breytingartillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga, með þeirri breytingu að ekki verði gerð breyting á kafla 3.3.1 um svalaganga og að það verði skýrt tilgreint til hvaða lóða deiliskipulagsbreytingin nær.
Erindi dagsett 25. október 2018 þar sem Haraldur S. Árnason f.h. Hótels Akureyrar ehf., kt. 640912-0220, sendir inn fyrirspurn varðandi ákvæði deiliskipulags um byggingarefni fyrirhugaðs hótels við Hafnarstræti 67-69. Í deiliskipulaginu kemur fram að nýbyggingin skuli vera steinsteypt á fjórum hæðum með risþaki en í erindinu er óskað eftir að heimilt verði að byggja húsið úr léttu efni að hluta. Fram kemur að þessi breyting muni ekki hafa áhrif á útlit hússins.
Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að gera tillögu að breytingu á deiliskipulagi í þessa veru sem nái einnig til annarra húsa í húsaröðinni.
Erindi dagsett 11. október 2018 þar sem Sigurður Sigurðsson f.h. SS Byggis ehf., kt. 620687-2519, sækir um breytta notkun fyrir Rangárvelli 4.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu erindisins þar sem verið er að vinna í breytingu á deiliskipulagi svæðisins.
Erindi dagsett 25. september 2018 þar sem Andri Páll Hilmarsson fyrir hönd Rarik ohf., kt. 520269-2669, leggur inn fyrirspurn um mögulega stækkun á aðveitustöð Rarik á Rangárvöllum. Meðfylgjandi er teikning.
Í gildandi deiliskipulagi er ekki gert ráð fyrir stækkun hússins og er breyting á deiliskipulagi því forsenda stækkunar. Verið er að vinna í breytingu á deiliskipulagi svæðisins og er erindinu vísað í þá vinnu.
Lagt fram erindi Hjörleifs Hallgríms Herbertssonar dagsett 4. október 2018, fyrir hönd H. Hallgríms ehf., kt. 710114-0990, þar sem hann óskar eftir leyfi til að byggja megi fjórar 40-50 fm íbúðir í húsi sem til stendur að byggja á lóðinni Aðalstræti 12b. Í erindinu kemur fram að aðstæður hafi breyst frá því að grenndarkynning deiliskipulagsbreytingar um fjölgun íbúða í samræmi við erindi fór fram vorið 2017. Er farið fram á að grenndarkynning deiliskipulagsbreytingarinnar verði endurtekin.
Skipulagsráð bendir á að bæjarstjórn samþykkti á fundi 18. september sl. að hafna breytingu á deiliskipulagi þar sem gert var ráð fyrir heimild til að byggja hús með fjórum íbúðum. Ekki er fallist á þau rök að aðstæður hafi breyst það mikið, frá því að skipulagsráð tók málið fyrir, að taka eigi málið upp að nýju. Er mælt með að bæjarstjórn hafni því að breyting á deiliskipulagi svæðisins verði grenndarkynnt að nýju.
Lögð fram til kynningar greinargerð Ingu Þallar Þórgnýsdóttur bæjarlögmanns, dagsetta 22. október 2018, f.h. Akureyrakaupstaðar, með svörum við efnisatriðum kæru Ásgeirs Arnars Blöndal, Pacta lögmönnum dagsett 1. október 2018 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir hönd Páls I. Sigurjónssonar, þar sem kærð er ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar þann 4. september 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Klettaborgar.
Lögð fram að lokinni grenndarkynningu tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem nær til lóðarinnar Halldóruhaga 4. Sótt var um að hækka nýtingarhlutfall úr 0,430 í 0,560 og reisa 2 fjölbýlishús á lóðinni með 15 íbúðum. Grenndarkynning var send með bréfi dagsettu 16. október 2018 með athugasemdafresti til 13. nóvember 2018. Þann 23. október 2018 barst skipulagssviði samþykki þeirra sem grenndarkynninguna fengu og telst því grenndarkynningu lokið.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt með vísun í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og að sviðsstjóra skipulagssviðs verði falið að sjá um gildistöku hennar.
Á fundi skipulagsráðs 13. desember 2017 var samþykkt framkvæmdaleyfi fyrir nokkrum umferðaröryggisaðgerðum á Hringvegi 1 í gegnum Akureyri í samræmi við erindi umhverfis- og mannvirkjasviðs dagsett 8. desember 2017. Einnig var búið að veita framkvæmdaleyfi fyrir breytingum og viðhaldi lagna Norðurorku hf. við Glerárgötu sunnan Þórunnarstrætis.
Afgreiðslu á framkvæmdaleyfi fyrir framhjáhlaupi til hægri á Þórunnarstræti inn á Glerárgötu var frestað vegna þess að gera þurfti breytingu á deiliskipulagi. Nú hefur deiliskipulagsbreyting fyrir svæðið tekið gildi og er því hægt að leggja framkvæmdaleyfisumsóknina fyrir að nýju.
Skipulagsráð hefur yfirfarið meðfylgjandi hönnunargögn vegna framkvæmda við framhjáhlaup til hægri frá Þórunnarstræti inn á Glerárgötu, sem er í samræmi við samþykkt aðal- og deiliskipulag. Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að framkvæmdaleyfið verði samþykkt með eftirfarandi skilyrði:
Framkvæmdir skulu vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarbæ en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.
Erindi dagsett 24. október 2018 þar sem Jóhanna María Agnarsdóttir f.h. Brekkuskóla óskar eftir úrbótum við gangsbraut yfir Þingvallastræti sem staðsett er við sundlaug Akureyrar vegna mikillar slysahættu.
Skipulagsráð vísar málinu til umsagnar samráðsfundar skipulagssviðs og umhverfis- og mannvirkjasviðs.
Lögð fram til kynningar fundargerð 694. fundar, dagsett 12. október 2018, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 11 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.
Lögð fram til kynningar fundargerð 695. fundar, dagsett 18. október 2018, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.
Lögð fram til kynningar fundargerð 696. fundar, dagsett 24. október 2018, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 4 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.