Beint í efni

Vefur í vinnslu

Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is

  • Kl. 16:00 - 17:30
  • Hamrar í Hofi
  • Fundur nr. 3479

Nefndarmenn

    • Halla Björk Reynisdóttirforseti bæjarstjórnar
    • Andri Teitsson
    • Hlynur Jóhannsson
    • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
    • Heimir Haraldsson
    • Hilda Jana Gísladóttir
    • Ingibjörg Ólöf Isaksen
    • Eva Hrund Einarsdóttir
    • Gunnar Gíslason
    • Sóley Björk Stefánsdóttir
    • Þórhallur Jónsson

Starfsmenn

    • Ásthildur Sturludóttirbæjarstjóri
    • Kristín Sóley Sigursveinsdóttirfundarritari
  • Bæjarstjórn Akureyrarbæjar - breytingar í nefndum 2018-2022 - frístundaráð

    Málsnúmer 2018060500

    Lögð fram tillaga S-lista um breytingu á skipan fulltrúa í frístundaráði:

    Sveinn Arnarsson verði aðalfulltrúi í stað Arnars Þórs Jóhannessonar.

    Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

  • Bæjarstjórn Akureyrarbæjar - breytingar í nefndum 2018-2022 - öldungaráð

    Málsnúmer 2018060500

    Lögð fram tillaga að breytingu á skipan fulltrúa í öldungaráði:

    Óskar Ingi Sigurðsson verði varafulltrúi í stað Guðmundar Baldvins Guðmundssonar.

    Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

  • Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2020 - árshlutauppgjör

    Málsnúmer 2020090157

    Liður 2 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 10. september 2020:

    Lagt fram óendurskoðað árshlutauppgjör janúar-júní 2020.

    Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

    Bæjarráð vísar árshlutauppgjöri til umræðu í bæjarstjórn.

    Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri kynnti uppgjörið.

    Í umræðum tók Gunnar Gíslason til máls.

    Bæjarstjórn staðfestir árshlutauppgjörið með 11 samhljóða atkvæðum.

  • Oddeyri - breyting á aðalskipulagi 2018-2030

    Málsnúmer 2019090318

    Liður 2 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 9. september 2020:

    Lögð fram að nýju að lokinni kynningu skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, tillaga að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar sem felur í sér breytingu á hluta athafnasvæðis á Oddeyri í íbúðarsvæði. Þá eru einnig lagðar fram athugasemdir og umsagnir sem bárust á kynningartíma.

    Afgreiðslu málsins var frestað á fundi ráðsins 10. júní sl. og síðan þá hefur verið fundað með fulltrúum hverfisnefndar Oddeyrar, eigendum mannvirkja á skipulagssvæðinu og þróunaraðila.

    Meirihluti skipulagsráðs leggur til við bæjarstjórn að aðalskipulagsbreytingin verði auglýst skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Arnfríður Kjartansdóttir V-lista greiðir atkvæði gegn tillögunni og óskar bókað að hæpið sé að ganga gegn óskum fjölmargra bæjarbúa um að byggja ekki háhýsi á umræddum byggingareit. Gildandi aðalskipulag sem kveður á um lágreista byggð var unnið í mjög miklu samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila í bænum. Í athugasemd frá hverfisnefnd Oddeyrar er vakin athygli á að byggðin syðst á Oddeyrinni er lágreist en hækkar eftir því sem norðar dregur. Ísavia bendir á að há íbúðarhús á þessum stað gætu dregið úr notkunargildi flugvallarins. Minjastofnun bendir á að það sé ekki einungis Gránufélagshúsið sem er friðað, heldur þurfi líka að taka tillit til hússins í hönnun nágrennis þess. Og nokkrar ábendingar almennra borgara vara við að endurtaka mistök borga og bæja um allan heim sem hafa byggt háhýsi við sjóinn og síðan uppgötvað ýmsa ókosti við það. Það á einnig eftir að koma í ljós, ef af háhýsabyggingum verður, hver á að bera kostnað af því að fá núverandi landeigendur burt af svæðinu.

    Tryggvi Már Ingvarsson B-lista, Orri Kristjánsson S-lista, Ólöf Inga Andrésdóttir L-lista, Þórhallur Jónsson D-lista og Þorvaldur Helgi Sigurpálsson M-lista ítreka bókun meirihluta skipulagsráðs frá fundi 22. apríl sl.

    Þá hefur einnig verið komið til móts við athugasemdir um hæð bygginga með því að takmarka hæð þeirra við 25 metra yfir sjávarmáli.

    Guðmundur Baldvin Guðmundsson kynnti tillögu skipulagsráðs.

    Í umræðum tóku til máls Þórhallur Jónsson, Hilda Jana Gísladóttir, Hlynur Jóhannsson, Sóley Björk Stefánsdóttir, Heimir Haraldsson, Gunnar Gíslason og Guðmundur Baldvin Guðmundsson.

    Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir að aðalskipulagsbreyting sem felur í sér breytingu á hluta athafnasvæðis á Oddeyri í íbúðarsvæði verði auglýst skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.



    Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista greiðir atkvæði gegn afgreiðslunni og Hlynur Jóhannsson M-lista situr hjá.



    Meirihluti bæjarstjórnar leggur fram eftirfarandi bókun:

    Breytingin felur í sér að hæð bygginga geti orðið allt að 25 metra yfir sjávarmáli sem samsvarar um 23 metrum frá jörðu. Samkvæmt samþykktu skipulagi er tilgreint að almennt skuli mannvirkin vera 3-4 hæðir, en þó megi einstaka hús vera hærri. Benda má á að samkvæmt gildandi skipulagsreglum flugvallarins er hámarksbyggingarhæð á reitnum 42 metrar.

    Meirihluti bæjarstjórnar vill árétta að sú mynd sem birt hefur verið í fjölmiðlum af útliti húsa er ekki til umræðu. Verði aðalskipulagsbreytingin samþykkt að auglýsingu lokinni, tekur við vinna við deiliskipulag þar sem afstaða er tekin til meðal annars byggingamagns, hæðar og útlits.

    Oddeyri er mikilvægt svæði þegar kemur að framtíðarþróun Akureyrar og æskilegt er að koma svæðinu í endurnýjun og uppbyggingu sem fyrst. Svæðið sem aðalskipulagsbreytingin á við um er verðmætt til uppbyggingar og þéttingar byggðar.

    Þétting byggðar er hvort tveggja umhverfisvæn og hagkvæm. Hlutfallslegur kostnaður við viðhald gatna, veitna, sorphirðu og snjómokstur á hvern íbúa lækkar. Göngu- og hjólafjarlægðir styttast og innviðir á borð við skóla og þjónustu nýtast fleirum ásamt því að auðveldara er að halda úti almenningssamgöngum.



    Eva Hrund Einarsdóttir D-lista, Gunnar Gíslason D-lista og Þórhallur Jónsson D-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

    Við bæjarfulltrúar D-lista tökum undir fyrirliggjandi bókun en teljum eðlilegt að þetta mál fari svo í íbúakosningu áður en málið verður endanlega afgreitt.

    Fylgiskjöl
  • Lokun fangelsisins á Akureyri

    Málsnúmer 2020090172

    Liður 1 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 10. september 2020:

    Rætt um lokun fangelsisins á Akureyri.

    Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri mætti á fund bæjarráðs.

    Bæjarráð þakkar Páleyju Borgþórsdóttur lögreglustjóra á Norðurlandi eystra fyrir komuna og greinargóð svör.

    Bæjarráð lýsir yfir vonbrigðum sínum með þá ákvörðun dómsmálaráðherra að loka fangelsinu á Akureyri. Vísar bæjarráð málinu til umræðu í bæjarstjórn.

    Halla Björk Reynisdóttir kynnti málið.

    Í umræðum tóku til máls Hilda Jana Gísladóttir og Gunnar Gíslason.

    Bæjarstjórn Akureyrarbæjar lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun dómsmálaráðherra að loka fangelsinu á Akureyri. Það veldur einnig vonbrigðum að ekki skuli hafa verið haft samráð við bæjarstjórn áður en ákvörðun lá fyrir. Fjölgun um 4 stöðugildi í lögreglunni nú í kjölfar lokunarinnar er í raun lágmarksviðbragð til þess að gera lögreglunni kleift að sinna hlutverki sínu, samkvæmt áliti ríkislögreglustjóra. Fram hefur komið í samtölum við lögregluna á Norðurlandi eystra að bæta þurfi við minnst 6 stöðugildum til að efla löggæsluna í kjölfar lokunarinnar.

    Það er rétt að löggæsla á Norðurlandi eystra hafði verið efld með tilkomu fjármagns til að sinna hálendisgæslu og landamæravörslu, en það hefur ekkert með lokun fangelsisins að gera. Sú aukning kom til vegna ærinna verkefna sem lágu fyrir og það sama á við um fjölgun í sérsveitinni um 1 stöðugildi, þannig að þau eru nú 2, sem er algjör lágmarksmönnun. Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um fjárreiður, stjórnsýslu og stjórnarhætti ríkislögreglustjóra, sem lögð var fram á þessu ári, að árið 2018 voru 1,7 stöðugildi lögreglumanna á hverja 1000 íbúa í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Það hlutfall var með því lægsta sem gerist á landinu og breytist lítið þrátt fyrir að 4 stöðugildi bætist við nú. Eftir þessa fjölgun eru 56 föst stöðugildi lögreglumanna í stað 52 áður sem þýðir að það verða 1,8 stöðugildi á hverja 1000 íbúa sem er áfram með því allra lægsta sem gerist.

    Þessi staða er með öllu óásættanleg og því hvetur bæjarstjórn dómsmálaráðherra til að bregðast við og bæta minnst 6 stöðugildum við embætti lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

  • Kostnaðar- og sviðsmyndagreining um uppbyggingu íþróttamannvirkja

    Málsnúmer 2019020227

    Rætt um forgangsröðun verkefna við uppbyggingu íþróttamannvirkja.

    Andri Teitsson kynnti greininguna.

    Í umræðum tóku til máls Sóley Björk Stefánsdóttir, Hlynur Jóhannsson, Gunnar Gíslason og Guðmundur Baldvin Guðmundsson.

    Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að forgangsröðun þverpólitísks hóps um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri verði höfð til hliðsjónar við undirbúning langtíma fjárfestingaráætlunar bæjarins. Verkefnin voru metin út frá fjárhagslegum og félagslegum forsendum og endurspegla niðurstöður hópsins þá þörf sem er til staðar í bænum. Um tímamótaáætlun er að ræða þar sem horft er til framtíðar í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri og þeim forgangsraðað. Nú þegar er búið að samþykkja fyrsta verkefnið samkvæmt áætluninni og undirbúningur hafinn á næstu tveimur. Um langtímaáætlun er að ræða og til hliðsjónar verður fjárhagsáætlun hvers tíma.

    Fylgiskjöl
  • Skýrsla bæjarstjóra

    Málsnúmer 2010090095

    Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.