Vefur í vinnslu
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Liður 3 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 30. janúar 2025:
Lagðar fram tillögur að breytingum á samþykkt fyrir fræðslu- og lýðheilsuráð.
Bæjarráð samþykkir tillögurnar og vísar þeim til bæjarstjórnar til staðfestingar.
Heimir Örn Árnason kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir fram lagðar breytingar á samþykkt fyrir fræðslu- og lýðheilsuráð með 11 samhljóða atkvæðum.
Liður 3 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 23. janúar 2024:
Liður 18 í fundargerð skipulagsráðs 15. janúar 2025:
Lögð fram til umræðu tillaga að breytingu á gjaldskrá gatnagerðar- og byggingarréttargjalda. Sindri Kristjánsson S-lista vék af fundi undir þessum fundarlið.
Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista leggur fram tillögu um að orðalag í grein 5.2 sé sambærilegt og í 6. grein þar sem heimilt er að fella niður gjöld vegna uppbyggingar sérhæfðs félagslegs húsnæðis. Meirihluti skipulagsráðs hafnar þeirri tillögu. Meirihluti skipulagsráðs samþykkir fyrirliggjandi drög og vísar málinu til afgreiðslu í bæjarráði. Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista situr hjá.
Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs og Dan J. Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir framlagða tillögu að breytingum á gjaldskrá gatnagerðargjalda með fjórum atkvæðum og vísar henni til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn. Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista situr hjá.
Heimir Örn Árnason kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir framlagðar breytingar á gjaldskrá gatnagerðar- og byggingarréttargjalda með átta samhljóða atkvæðum.
Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista og Gunnar Már Gunnarsson B-lista sitja hjá.
Liður 5 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 29. janúar 2025:
Lögð fram að lokinni auglýsingu tillaga að endurskoðun deiliskipulags íþróttasvæðis Þórs. Ein athugasemd barst við auglýsta tillögu á kynningartíma ásamt umsögnum frá Minjastofnun Íslands og Norðurorku. Er tillagan lögð fram með nokkrum breytingum til að koma til móts við innkomna athugasemd auk þess sem bætt hefur verið við tveimur byggingarreitum vestan við fyrirhugaðan völl þar sem gert er ráð fyrir gámum í tengslum við upptökur og byggingarreit við norðvesturhluta vallarins fyrir hálfniðurgrafið tæknirými og snyrtingar. Er jafnframt lögð fram tillaga að umsögn um efni athugasemdar.
Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Jóhann Jónsson S-lista á því athygli að hann teldi sig vanhæfan að fjalla um þennan lið. Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir skipulagsráð og var það samþykkt. Jóhann Jónsson S-lista vék af fundi undir þessum lið. Skipulagsráð telur mikilvægt að bætt verði kafla í ljósvistarskipulag Akureyrarbæjar um lýsingu á keppnisvöllum og verði birt á heimasíðu Akureyrarbæjar. Ráðið samþykkir umsögn um innkomna athugasemd og leggur til við bæjarstjórn að endurskoðun deiliskipulags íþróttasvæðis verði samþykkt með tilgreindum breytingum eftir auglýsingu.
Andri Teitsson kynnti.
Til máls tóku Sunna Hlín Jóhannsdóttir og Jón Hjaltason.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum endurskoðað deiliskipulag íþróttasvæðis Þórs með tilgreindum breytingum eftir auglýsingu. Bæjarstjórn samþykkir jafnframt umsögn um innkomna athugasemd.
Liður 7 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 29. janúar 2025:
Lögð fram að nýju tillaga að endurskoðun húsnæðisáætlunar fyrir Akureyrarbæ, sem gildir fyrir tímabilið 2024-2034.
Skipulagráð samþykkir húsnæðisáætlun fyrir Akureyrarbæ, sem gildir fyrir tímabilið 2024-2034, með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum og vísar málinu til bæjarstjórnar. Jón Hjaltason óflokksbundinn situr hjá við afgreiðslu erindisins.
Halla Björk Reynisdóttir kynnti.
Til máls tóku Jón Hjaltason, Gunnar Már Gunnarsson, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Hilda Jana Gísladóttir, Hulda Elma Eysteinsdóttir, Andri Teitsson, Halla Björk Reynisdóttir og Ásrún Ýr Gestsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir endurskoðaða húsnæðisáætlun fyrir Akureyrarbæ með 10 atkvæðum.
Jón Hjaltason óflokksbundinn situr hjá.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson B-lista óska bóka:
Samkvæmt húsnæðisáætlun 2025 er vænt framboð íbúða árið 2025 um 120 íbúðir, um 50 árið 2026 og rétt undir 100 árið 2027. Miðspá gerir ráð fyrir þörf upp á 197 íbúðir á ári. Við erum ekki einu sinni nálægt því að ná þeim markmiðum á næstu árum. Til að þær áætlanir um lóðaframboð sem settar eru fram í húsnæðisáætlun standist er mikilvægt að hraða skipulagsvinnu, vinna upp lager af íbúðalóðum og viðhafa virkt eftirlit með framkvæmdum á nýjum hverfum svo ekki komi til seinkana. Þannig komum við okkur upp úr þeirri lægð sem hefur myndast á húsnæðismarkaðinum á þessu kjörtímabili.
Liður 4 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 30. janúar 2025:
Lagt fram erindi dagsett 22. janúar 2025 frá matvælaráðuneytinu þar sem tilkynnt er um úthlutun byggðakvóta til Grímseyjar og Hríseyjar fiskveiðiárið 2024-2025. Sveitarfélögum er gefinn frestur til 21. febrúar nk. að senda ráðuneytinu tillögur að sérreglum um byggðakvóta í einstökum byggðarlögum.
Bæjarráð óskar eftir því að veitt verði undanþága í 6. gr. reglugerðar um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2024/2025 nr. 819/2024. Óskað er eftir því að vinnsluskylda á byggðakvóta verði felld niður í sérreglum Akureyrarbæjar um úthlutun byggðakvóta í Grímsey.
Rökin fyrir beiðninni eru einkum þau að Grímsey hefur verið skilgreind sem brothætt byggð og í dag er engin vinnsla starfandi í Grímsey en landaður afli er umtalsverður og er hann fluttur í burtu til vinnslu í landi.
Ekki hefur verið talinn grundvöllur til að reka vinnslu í eyjunni með það magn sem þar kemur á land í dag. Í dag eru nánast allir þeir sem stunda sjósókn og landa í Grímsey búsettir í eyjunni og allar útgerðirnar sem þar landa eru með lögheimili í eyjunni. Það þjónar hagsmunum byggðarinnar í Grímsey að vinnsluskyldan verði felld niður í ljósi núverandi stöðu annars yrði engum byggðakvóta úthlutað í eyjunni.
Ekki er óskað eftir breytingum á reglugerð um úthlutun byggðakvóta í Hrísey.
Bæjarráð vísar málinu til bæjarstjórnar.
Heimir Örn Árnason kynnti.
Bæjarstjórn staðfestir ósk bæjarráðs um sérreglur vegna byggðakvóta í Grímsey með 11 samhljóða atkvæðum og felur bæjarstjóra að senda bókun bæjarráðs til matvælaráðuneytis.
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.