Beint í efni

Vefur í vinnslu

Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is

  • Kl. 16:00 - 17:55
  • Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
  • Fundur nr. 3561

Nefndarmenn

    • Halla Björk Reynisdóttirforseti bæjarstjórnar
    • Heimir Örn Árnason
    • Hlynur Jóhannsson
    • Jón Hjaltason
    • Jana Salóme I. Jósepsdóttir
    • Gunnar Már Gunnarsson
    • Andri Teitsson
    • Hilda Jana Gísladóttir
    • Hulda Elma Eysteinsdóttir
    • Lára Halldóra Eiríksdóttir
    • Sunna Hlín Jóhannesdóttir

Starfsmenn

    • Olga Margrét Kristínard. Cilialögfræðingur
Í upphafi fundar leitaði forseti afbrigða frá útsendri dagskrá og bað um að bætt yrði við nýjum dagskrárlið, 8. liður um Hríseyjarferjuna - ný gjaldskrá. Var það samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.
  • Breytingar í nefndum - velferðarráð

    Málsnúmer 2025031359

    Lögð fram tillaga Jóns Hjaltasonar óflokksbundins um breytingu á skipan fulltrúa í velferðarráði. Halla Birgisdóttir Ottesen verði áheyrnarfulltrúi til 1. október 2025 í stað Tinnu Guðmundsdóttur sem verður í leyfi.

    Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

  • Breytingar í nefndum - velferðarráð

    Málsnúmer 2025031360

    Lögð fram tillaga Jóns Hjaltasonar óflokksbundins um breytingu á skipan fulltrúa í velferðarráði. Brynjólfur Ingvarsson verði vara-áheyrnarfulltrúi til 1. október 2025 í stað Höllu Birgisdóttur Ottesen.

    Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

  • Hlíðarvellir - fyrirspurn varðandi skipulagsmál

    Málsnúmer 2025030163

    Liður 5 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 12. mars 2025:

    Erindi dagsett 5. mars 2025 þar sem Jóhann Þór Jónsson f.h. atNorth ehf. sækir um lóðir c, d og e á athafnasvæði við Hlíðarvelli til uppbyggingar á gagnaveri. Er jafnframt óskað eftir að lóðirnar verði sameinaðar núverandi lóð gagnavers atNorth við Hlíðarvelli.

    Skipulagsráð tekur jákvætt í fyrirliggjandi erindi þar sem um er að ræða framhald uppbyggingar sem hófst á svæðinu árið 2021. Skipulagsráð telur mikilvægt áður en að úthlutun kemur þá verði gerður samningur um nýtingu glatvarmans sem verður til við uppbygginguna. Ákvörðun um úthlutun lóðanna til umsækjanda er vísað til bæjarstjórnar sbr. ákvæði gr. 2.3 í reglum um úthlutun lóða.



    Halla Björk Reynisdóttir kynnti.



    Til máls tók Sunna Hlín Jóhannesdóttir.



    Bæjarstjórn samþykkir með átta atkvæðum að úthluta þremur lóðum að Hlíðarvöllum, merktar c, d og e í deiliskipulagi, til atNorth ehf. án auglýsingar með vísan til 2.3. gr. í reglum um úthlutun lóða. Er gert ráð fyrir að í kjölfar úthlutunar verði gerð breyting á deiliskipulagi sem felur í sér að lóðirnar þrjár, auk svæðis sem fara átti undir vegsvæði, verði sameinaðar lóð Hlíðarvalla 1. Mikilvægt er að gott samráð verði við Norðurorku um útfærslu breytingarinnar og að tekið sé tillit til fyrirliggjandi umsagnar dagsettri 26. mars 2025.

    Bæjarstjórn samþykkir jafnframt með átta atkvæðum að gatnagerðargjald verði 15% sbr. heimild 1. mgr. 5.2. gr. í gjaldskrá gatnagerðar- og byggingarréttargjalda í Akureyrarbæ nr. 24/2024. Til viðbótar við gatnagerðargjald leggst á byggingarréttargjald til samræmis við gjaldskrá Akureyrarbæjar þar um.

    Samþykkt bæjarstjórnar er með fyrirvara um að gerður verði samningur við atNorth um nýtingu glatvarma sem til verður við starfsemina. Skal samningurinn staðfestur af bæjarráði.



    Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson B-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista sitja hjá og óska bókað:



    Í reglum um úthlutun lóða er skipulagsráði í sérstökum undantekningartilvikum heimilt að veita vilyrði eða úthluta lóð/lóðum án undangenginnar auglýsingar að fengnu samþykki bæjarstjórnar. Tillagan sem nú liggur fyrir bæjarstjórn gerir ráð fyrir að lóðum undir gagnaver sé úthlutað í þriðja sinn án auglýsingar til tiltekins fyrirtækis, en án alls rökstuðnings þar um. Stöldrum heldur við í þetta sinn og gefum viðkomandi fyrirtæki svigrúm til þess að reisa fyrirhugaða skrifstofubyggingu, sem átti að rísa eftir fyrstu lóðarúthlutun. Gefum umsækjanda jafnframt tækifæri til að sýna fram á að hægt sé að nýta glatvarmann frá húsunum úr annarri úthlutun, því ekki var hægt að nýta hann frá fyrstu húsunum. Þá fyrst getum við samþykkt þessa úthlutun.

    Fylgiskjöl
  • Eigandastefna fyrir félög í eigu Akureyrarbæjar

    Málsnúmer 2023091318

    Liður 1 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 19. mars 2025:

    Lögð fram tillaga að eigandastefnu Akureyrarbæjar vegna fyrirtækja í eigu bæjarins.

    Helga Hlín Hákonardóttir ráðgjafi hjá Strategíu sat fund bæjarráðs undir þessum lið í gegnum fjarfundarbúnað.

    Bæjarráð samþykkir framlagða tillögu að eigandastefnu Akureyrarbæjar vegna fyrirtækja í eigu bæjarins og vísar málinu til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn.

    Bæjarráð leggur jafnframt til við bæjarstjórn að fela bæjarstjóra að útfæra aðgerðaáætlun skv. 3. gr. stefnunnar um innleiðingu hennar. Fyrirséð er meðal annars að breytingar á stjórn Norðurorku þarfnast undirbúnings og koma til innleiðingar á aðalfundi félagsins 2026.



    Hlynur Jóhannsson kynnti.



    Til máls tóku Hilda Jana Gísladóttir og Halla Björk Reynisdóttir.

    Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum framlagða eigandastefnu Akureyrarbæjar vegna fyrirtækja í eigu bæjarins og felur bæjarstjóra að útfæra aðgerðaáætlun um innleiðingu hennar. Fyrirséð er meðal annars að breytingar á stjórn Norðurorku þarfnast undirbúnings og koma ekki til innleiðingar fyrr en á aðalfundi 2026.

    Fylgiskjöl
  • Tillaga til þingsályktunar um Borgarstefnu

    Málsnúmer 2025030938

    Rætt um tillögu til þingsályktunar um Borgarstefnu sem umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendi til umsagnar. Bæjarráð tók málið fyrir á fundi sínum 27. mars 2025, fagnaði framkominni þingsályktunartillögu og fól bæjarstjóra að skila inn umsögn vegna málsins.



    Málshefjandi er Halla Björk Reynisdóttir.



    Til máls tóku Hilda Jana Gísladóttir, Heimir Örn Árnason og Halla Björk Reynisdóttir.

    Bæjarstjórn fagnar framkominni þingsályktunartillögu um Borgarstefnu sem felur í sér að svæðisbundið hlutverk Akureyrarbæjar verði staðfest. Bæjarstjórn hvetur jafnframt til þess að unnin verði aðgerðaáætlun svo að innleiðing stefnunnar gangi eftir. Að öðru leyti leggur bæjarstjórn fram meðfylgjandi umsögn.

    Fylgiskjöl
  • Háskólinn á Akureyri

    Málsnúmer 2024101093

    Rætt um Háskólann á Akureyri og mikilvægi stofnunarinnar fyrir sveitarfélagið.



    Málshefjandi er Halla Björk Reynisdóttir.



    Til máls tók Jón Hjaltason.

    Bæjarstjórn telur að Háskólinn á Akureyri sé burðarás í samfélagi Norðurlands. Með víðtæku framboði á námi og staðbundinni þekkingarsköpun styður hann við byggðaþróun, jafnræði í menntun og nýsköpun á svæðinu. Skólinn hefur reynst lykill að því að halda ungu fólki í heimabyggð, laða að nýja íbúa og skapa fjölbreyttari atvinnumöguleika. Í ljósi umræðu um mögulega sameiningu við Háskólann á Bifröst er mikilvægt að tryggja að Háskólinn á Akureyri haldi framangreindri sérstöðu sinni og styrk svo að hann geti áfram verið drifkraftur menntunar, rannsókna og samfélagsþróunar á Norðurlandi.

  • Samfélagssáttmáli um samfélagsmiðla- og skjánotkun barna

    Málsnúmer 2025031559

    Umræða um gerð samfélagssáttmála um samfélagsmiðla- og skjánotkun barna hjá Akureyrarbæ.



    Málshefjandi er Sunna Hlín Jóhannesdóttir.



    Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson B-lista lögðu fram eftirfarandi tillögu:

    Fræðslu- og lýðheilsusviði Akureyrarbæjar er falið, í samvinnu við hlutaðeigendur, að stýra vinnu við gerð samfélagssáttmála íbúa um samfélagsmiðlanotkun og skjánotkun barna. Jafnframt er sviðinu falið að leggja fram verkáætlun og kostnaðarmat fyrir fræðslu- og lýðheilsuráð og í framhaldinu bæjarráð áður en vinna við sáttmálann hefst. Fara skal í markvissa kynningu á vinnunni til að fá sem flesta að borðinu, svo sem börn og ungmenni, heimilin og foreldrafélög grunnskólanna, og í framhaldinu settir upp verkferlar við kynningu og eftirfylgni á samfélagssáttmálanum.



    Til máls tóku Hilda Jana Gísladóttir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Heimir Örn Árnason, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, Hulda Elma Eysteinsdóttir. Gunnar Már Gunnarsson, Halla Björk Reynisdóttir, Jón Hjaltason og Lára Halldóra Eiríksdóttir.



    Hilda Jana Gísladóttir S-lista lagði fram breytingartillögu á tillögu Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur og Gunnars Más Gunnarssonar þess efnis að í stað orðsins skjánotkun yrði notað orðið leikjanotkun.



    Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista lagði fram breytingartillögu á tillögu sinni og Gunnars Más Gunnarssonar þess efnis að í stað orðsins skjánotkun yrði notað orðið skjátími.



    Hilda Jana Gísladóttir S-lista dró breytingartillögu sína til baka.



    Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista dró breytingartillögu sína til baka.

    Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 10 atkvæðum.



    Hilda Jana Gísladóttir situr hjá og óskar bókað:

    Ég tel að það geti verið jákvætt að skapa umhverfi þar sem foreldrar geta sameiginlega mótað samfélagssáttmála um hvað eina sem þau vilja er varðar uppeldi barna þeirra. Hinsvegar er hugtakið skjátími í mínum huga óheppilegt, þar sem það nær utan um tíma sem varið er í notkun á skjám sem getur talist mjög gagnlegt s.s. við lestur bóka, lærdóms, samtals við ættingja o.s.frv.

  • Hríseyjarferjan - ný gjaldskrá

    Málsnúmer 2025040068

    Rætt um fyrirhugaðar breytingar á gjaldskrá Hríseyjarferju.



    Málshefjandi er Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir.

    Bæjarstjórn lýsir yfir vonbrigðum með boðaða hækkun á gjaldskrá Hríseyjarferjunnar Sævars, þar sem gert er ráð fyrir að fargjald fullorðinna í upphringiferðir rúmlega tvöfaldist og fargjald ungmenna, öryrkja og ellilífeyrisþega í sömu ferðir rúmlega fjórfaldist. Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að kalla eftir rökstuðningi hjá Vegagerðinni.