Vefur í vinnslu
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Lögð fram bókun svohljóðandi:
Bæjarstjórn Akureyrarbæjar mótmælir harðlega áformum Landsbankans um að loka hraðbanka sínum í Hrísey. Ef af þessum áformum verður þurfa íbúar að sækja alla sína bankaþjónustu til lands og þá er bent á að ferðamenn hafa þá ekkert aðgengi að bankaþjónustu sem er afar bagalegt með auknum ferðamannastraumi. Bankaþjónusta er ein af grunnstoðum hvers samfélags og er þessi ákvörðun því til þess eins fallin að veikja byggð í Hrísey en byggð á þar í vök að verjast eins og fram hefur komið.
Bæjarstjórn samþykkir framlagða bókun með 11 samhljóða atkvæðum.
Lögð fram eftirfarandi tillaga um breytingu á skipan aðalmanns og áheyrnarfulltrúa í atvinnumálanefnd:
Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista tekur sæti aðalmanns í stað Margrétar Kristínar Helgadóttur Æ-lista og Margrét Kristín Helgadóttir, tekur sæti áheyrnarfulltrúa í stað Sóleyjar Bjarkar Stefánsdóttur.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.
1. liður í fundargerð skipulagsnefndar dagsett 28. október 2015:
Erindi dagsett 24. ágúst 2015 þar sem Agnes Heiða Skúladóttir og Árni Gunnar Kristjánsson spyrjast fyrir um gerð stakstæðrar bílageymslu á lóð nr. 22 við Helgamagrastræti. Skipulagsnefnd heimilaði umsækjanda þann 9. september 2015 að leggja fram tillögu að breytingu að deiliskipulagi.
Lögð er fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi dagsett 14. október 2015 og unnin af Ómari Ívarssyni hjá Landslagi. Kostnaðargreining tillögunnar var unnin á framkvæmdadeild.
Skipulagsnefnd getur ekki fallist á færslu hraðahindrunar sem gert er ráð fyrir í tillögunni og því skal gert ráð fyrir henni óbreyttri.
Þar sem um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi er að ræða leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að tillagan þannig breytt verði grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 11 samhljóða atkvæðum.
2. liður í fundargerð skipulagsnefndar dagsett 28. október 2015:
Staðgengill skipulagsstjóra lagði fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi 'Hagahverfis'. Um er að ræða minniháttar leiðréttingu á gögnum og nýja lóð fyrir spennistöð Norðurorku. Tillagan er unnin af Árna Ólafssyni hjá Teiknistofu Arkitekta, Gylfa Guðjónssyni og félögum ehf. dagsett 28. október 2015. Einnig er meðfylgjandi uppfærður uppdráttur af hverfinu.
Skipulagsnefnd leggur til að grenndarstöð verði fundinn staður á verslunarlóð til hliðar við spennistöð.
Þar sem um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi er að ræða leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að tillagan þannig breytt verði grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 11 samhljóða atkvæðum.
2. liður í fundargerð atvinnumálanefndar dagsett 21. október 2015:
Lagður fram samningur vegna stofnunar Hollvinasamtaka Fabey, en tilgangur félagsins er er að koma á fót og reka stafræna smiðju, FabLab í Eyjafirði. Með rekstri á stafrænni smiðju FabLab í Eyjafirði er stefnt á að auka þekkingu skólafólks og almennings á persónumiðaðri framleiðslu og stafrænum framleiðsluaðferðum. Verkefninu er ætlað að auka áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum, auka almennt tæknilæsi og tæknivitund og efla hæfni til nýsköpunar í námi og atvinnulífi. Markmið verkefnisins er enn fremur að skapa vettvang fyrir nýsköpun og efla samkeppnishæfni fyrirtækja, menntastofnana og nemenda.
Atvinnumálanefnd leggur til við bæjarstjórn að Akureyrarbær taki þátt í stofnun Hollvinasamtaka Fabey.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að taka þátt í stofnun Hollvinasamtaka Fabey.
Bæjarráð vísaði á fundi sínum þann 29. október 2015 fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2016-2019 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn samþykkir með 10 samhljóða atkvæðum að vísa fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2016-2019 til frekari yfirferðar í bæjarráði og síðari umræðu í bæjarstjórn.
Gunnar Gíslason D-lista sat hjá við afgreiðslu.
Njáll Trausti Friðbertsson D-lista óskar bókað:
Ég legg til að í framkvæmdayfirliti fjárhagsáætlunar Akureyrarbæjar 2016-2019 verði gert ráð fyrir að klára framkvæmdir við lóð Naustaskóla sunnan við skólann eins og gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun síðasta árs.