Beint í efni

Vefur í vinnslu

Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is

  • Kl. 08:15 - 11:10
  • Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
  • Fundur nr. 3601

Nefndarmenn

    • Halla Björk Reynisdóttirvaraformaður
    • Hilda Jana Gísladóttir
    • Ingibjörg Ólöf Isaksen
    • Eva Hrund Einarsdóttir
    • Gunnar Gíslason
    • Hlynur Jóhannssonáheyrnarfulltrúi
    • Sóley Björk Stefánsdóttiráheyrnarfulltrúi

Starfsmenn

    • Kristín Sóley Sigursveinsdóttirforstöðumaður upplýsinga- og þjónustudeildar ritaði fundargerð
Ingibjörg Ólöf Isaksen B-lista sat fundinn í forföllum Guðmundar Baldvins Guðmundssonar.
  • Trúnaðaryfirlýsing bæjarfulltrúa, nefndamanna og áheyrnarfulltrúa 2018 - 2022

    Málsnúmer 2018060368

    Trúnaðaryfirlýsingar bæjarráðsfulltrúa lagðar fram og undirritaðar.

    Fylgiskjöl
  • Slökkvilið Akureyrar - beiðni um launað námsleyfi fyrir starfsmenn

    Málsnúmer 2018040280

    2. liður í fundargerð kjarasamninganefndar dagsett 31. maí 2018:

    Kjarasamninganefnd tók til umfjöllunar á fundi sínum 3. maí 2018:

    Á fundi umhverfis- og mannvirkjaráðs 27. apríl 2018 var eftirfarandi bókað:

    Lögð fram beiðni frá slökkviliðsstjóra dagsett 25. apríl 2018 um að fjórum starfsmönnum slökkviliðsins verði veitt launað námsleyfi til menntunar í bráðatækni.

    Ólafur Stefánsson slökkviliðsstjóri sat fundinn undir þessum lið.

    Umhverfis- og mannvirkjaráð tekur jákvætt í erindið og vísar því til kjarasamninganefndar.

    Afgreiðslu frestað til næsta fundar kjarasamninganefndar.

    Ólafur Stefánsson slökkviliðstjóri SA sat fund kjarasamninganefndar 31. maí 2018 undir þessum lið.

    Kjarasamninganefnd leggur til við bæjarráð að beiðni SA um heimild til að veita fjórum starfsmönnum Slökkviliðs Akureyrar námsleyfi vegna náms bráðatækna verði samþykkt. Kostnaður vegna námsleyfis skal rúmast innan fjárhagsáætlunar SA. Skilyrði fyrir veitingu námsleyfis er að starfsmaður skuldbindi sig til að vinna hjá SA eftir að námi er lokið sem nemur þreföldum námstíma.

    Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

    Bæjarráð samþykkir beiðni Slökkviliðs Akureyrar um heimild til að veita fjórum starfsmönnum SA 10 vikna launað námsleyfi vegna náms bráðatækna.

    Fylgiskjöl
  • Skipulagssvið - skipting í skipulags- og byggingahluta

    Málsnúmer 2018030048

    3. liður í fundargerð kjarasamninganefndar dagsett 31. maí 2018:

    Kjarasamninganefnd tók til umfjöllunar á fundi sínum 3. maí 2018:

    2. liður í fundargerð skipulagsráðs dagsett 14. mars 2018:

    Lagt er til að skipulagssviði verði skipt upp í tvo hluta, skipulagshluta og byggingarhluta. Yfirmaður skipulagshluta verði skipulagsfulltrúi og yfirmaður byggingarhluta verði byggingarfulltrúi. Lögð fram tillaga sviðsstjóra að skipuriti ásamt yfirliti yfir helstu verkefni sviðsins.

    Skipulagsráð tekur jákvætt í tillöguna og vísar erindinu til bæjarráðs.

    Afgreiðslu frestað til næsta fundar kjarasamninganefndar.

    Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs sat fund kjarasamninganefndar 31. maí 2018 undir þessum lið.

    Meirihluti kjarasamninganefndar leggur til við bæjarráð að tillaga um breytingu á skipuriti skipulagssviðs verði samþykkt og starf byggingarfulltrúa verði skilgreint sem deildarstjórastarf. Lagt er til að greitt verði stjórnendaálag vegna starfsins skv. reglum Akureyrarbæjar um greiðslu stjórnendaálags deildarstjóra.

    Bókun Gunnars Gíslasonar D-lista:

    Ég tel rétt að staða byggingarfulltrúa verði auglýst því hér er um nýja stöðu að ræða innan skipulagssviðs.

    Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

    Meirihluti bæjarráðs samþykkir tillögu meirihluta kjarasamninganefndar enda er ekki um nýja stöðu að ræða heldur breytingu á starfi.

    Bókun Gunnars Gíslasonar D-lista og Evu Hrundar Einarssonar D-lista:

    Við teljum rétt að staða byggingarfulltrúa verði auglýst því hér er um nýja stöðu að ræða innan skipulagssviðs.

    Fylgiskjöl
  • Eining-Iðja - ágreiningur um matar- og kaffitíma starfsmanna í tímavinnu

    Málsnúmer 2018060414

    Erindi dagsett 19. júní frá Birni Snæbjörnssyni fyrir hönd Einingar-Iðju þar sem þess er farið á leit við bæjarráð að svarað verði hvort það sé opinber afstaða Akureyrarbæjar að virða ekki túlkun samstarfsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands hvað varðar réttindi tímavinnustarfsmanna til matar- og kaffitíma til jafns við annað vaktavinnufólk.

    Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

    Bæjarráð vísar málinu til kjarasamninganefndar.

    Fylgiskjöl
  • Verklagsreglur um ritun fundargerða og birtingu fylgigagna með fundargerðum - endurskoðun vor 2018

    Málsnúmer 2018050226

    Lögð fram endurskoðuð drög að verklagsreglum um ritun fundargerða og birtingu fylgigagna. Málið var áður á dagskrá ráðsins 21. júní sl. Tillagan gerir ráð fyrir að sameinaðar verði í eitt skjal verklagsreglur sem áður voru í tveimur skjölum. Jafnframt er skerpt á nokkrum atriðum m.a. að birta beri öll fylgiskjöl nema lög kveði á um annað.

    Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

    Bæjarráð samþykkir framlögð drög að verklagsreglum með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum.

    Fylgiskjöl
  • Ný persónuverndarlög

    Málsnúmer 2017080040

    Lögð fram tillaga að persónuverndarstefnu Akureyrarbæjar, sem tekur á persónuvernd og upplýsingaöryggi, og tillaga að fræðslu til almennings með vísan til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem taka gildi 15. júlí nk.

    Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður og Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

    Bæjarráð samþykkir framlagða tillögu að persónuverndarstefnu Akureyrarbæjar.

    Fylgiskjöl
  • Holtagata 9 - umsókn um fjölgun eigna - endurupptaka máls

    Málsnúmer 2018050208

    Á fundi skipulagsráðs 30. maí sl. var tekin fyrir umsókn um skiptingu íbúðarhúss við Holtagötu 9 í tvær íbúðareignir og fékk málið eftirfarandi afgreiðslu:

    Erindi dagsett 22. maí 2018 þar sem Kristján Eldjárn fyrir hönd Rósu Septínu Rósantsdóttur og Sóleyjar Bjarkar Stefánsdóttur sækir um að fjölga eignum úr einni í tvær í húsi nr. 9 við Holtagötu. Meðfylgjandi er eignaskiptasamningur.

    Skipulagsráð hafnar erindinu þar sem það samræmist ekki deiliskipulagi svæðisins.

    Edward Hákon Huijbens V-lista sat hjá.



    Með tölvupósti dags. 1. júní var óskað eftir endurupptöku málsins og fylgdi með bréf dags. 31. maí 2018 ásamt umsókn um byggingarleyfi, grunnmynd af húsinu og tillögu að eignaskiptaryfirlýsingu.

    Í 18. grein samþykktar fyrir skipulagsráð kemur eftirfarandi fram um endurupptöku máls:

    "Eftir að skipulagsráð eða starfsmenn þess hafa tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt, á aðili máls rétt á því að mál sé tekið fyrir að nýju ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem hafa breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Endurupptaka er heimil innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.

    Aðili máls skal beina kröfu um endurupptöku máls til bæjarráðs."

    Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

    Sóley Björk Stefánsdóttir vék af fundi við umfjöllun og afgreiðslu þessa dagskrárliðar.

    Bæjarráð fellst á endurupptöku málsins vegna viðbótarupplýsinga sem borist hafa og vísar því til skipulagsráðs.

    Fylgiskjöl
  • Kosning nefnda 2018-2022

    Málsnúmer 2018060032

    Fræðslunefnd: 5 starfsmenn Akureyrarbæjar og 5 til vara.

    Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

    Bæjarráð skipar eftirtalda starfsmenn í fræðslunefnd:

    Inga Þöll Þórgnýsdóttir, formaður

    Dan Jens Brynjarsson, varaformaður

    Karólína Gunnarsdóttir

    Halldór Sigurður Guðmundsson

    Tómas Björn Hauksson



    Varamenn:

    Kristinn Jakob Reimarsson

    Birna Eyjólfsdóttir

    Guðrún Guðmundsdóttir

    Helga Hauksdóttir

    Steindór Ívar Ívarsson

  • Í skugga valdsins #metoo

    Málsnúmer 2017120072

    Þann 12. desember 2017 samþykkti bæjarstjórn Akureyrar að fela bæjarráði að skipa starfshóp sem útbýr viðbragðsáætlun vegna ofbeldis, áreitis og/eða kynferðislegrar áreitni sem kjörnir fulltrúar kunna að verða fyrir í störfum sínum fyrir bæinn í kjölfar #metoo umræðu í samfélaginu. Skal þessi áætlun vera unnin í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og stjórnmálaflokka á Akureyri. Eins skal þessi starfshópur yfirfara siðareglur og nýliðafræðslu kjörinna fulltrúa.

    Á fundi sínum þann 11. janúar 2018 skipaði bæjarráð bæjarfulltrúana Evu Hrund Einarsdóttur og Silju Dögg Baldursdóttur og Eirík Björn Björgvinsson bæjarstóra í starfshópinn. Þar sem hópurinn hefur ekki lokið störfum og tveir af þremur fulltrúum eru hættir störfum hjá Akureyrarbæ þarf að skipa tvo fulltrúa í þeirra stað.

    Bæjarráð skipar Höllu Margréti Tryggvadóttur sviðsstjóra stjórnsýslusviðs og Andra Teitsson bæjarfulltrúa í starfshópinn.

  • Akursíða 2 og 4

    Málsnúmer 2018060374

    1. liður í fundargerð velferðarráðs dagsett 20. júní 2018:

    Lögð fram fundargerð starfsfólks fjölskyldusviðs og búsetusviðs dagsett 7. júní 2018, minnisblað dagsett 15. júní 2018 varðandi möguleg kaup á fimm íbúðum í Akursíðu 2-4 á Akureyri og kauptilboð dagsett 19. júní 2018.

    Kolbeinn Aðalsteinsson skrifstofustjóri búsetusviðs og Anna Marit Níelsdóttir forstöðumaður í félagsþjónustu sátu fundinn undir þessum lið.

    Velferðarráð samþykkir fyrir sitt leyti að íbúðirnar við Akursíðu 2-4 verði keyptar og vísar málinu áfram til umhverfis- og mannvirkjaráðs og bæjarráðs.

    5. liður í fundargerð umhverfis- og mannvirkjaráðs dagsett 26. júní 2018:

    Lagt fram kauptilboð dagsett 19. júní 2018 í fimm íbúðir við Akursíðu 2-4 sem hafa verið í leigu frá árinu 2006 fyrir fatlað fólk. Kauptilboðið hljóðar upp á 120.500.000 krónur. Velferðarráð samþykkti kaupin á fundi sínum þann 20. júní 2018.

    Umhverfis- og mannvirkjaráð samþykkir kaupin á íbúðunum og að þau muni rúmast innan fjárfestingaráætlunar ársins 2018.

    Bæjarráð samþykkir kaup á 5 íbúðum við Akursíðu 2-4.

  • Slökkvilið Akureyrar - Samningur um sjúkraflutninga við Sjúkratryggingar Íslands

    Málsnúmer 2018040281

    3. liður í fundargerð umhverfis- og mannvirkjaráðs dagsett 26. júní 2108:

    Lagður fram samningur við Sjúkratryggingar Íslands um sjúkraflutninga á þjónustusvæði heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri dagsettur 20. júní 2018. Samningurinn gildir frá 1. júní 2018 til og með 31. desember 2019.

    Ólafur Stefánsson slökkviliðsstjóri sat fundinn undir þessum lið.

    Umhverfis- og mannvirkjaráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti og vísar honum til afgreiðslu í bæjarráði.

    Bæjarráð samþykkir samninginn.

    Fylgiskjöl
  • Vinabæir og erlend samskipti

    Málsnúmer 2014090064

    Erindi dagsett 22. febrúar 2018 frá borgarstjóranum í Randers þar sem boðað er til kontaktmannafundar norrænna vinabæja 15.-18. ágúst nk.

    Bæjarráð samþykkir að bæjarfulltrúarnir Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Halla Björk Reynisdóttir verði fulltrúar Akureyrarbæjar á fundinum.

  • Greið leið ehf - hluthafafundur 2018

    Málsnúmer 2018060518

    Erindi dagsett 22. júní 2018 frá Pétri Þór Jónassyni f.h. Greiðrar leiðar ehf. þar sem boðað er til hluthafafundar mánudaginn 2. júlí nk. í Hafnarstræti 91 Akureyri (3. hæð). Fundurinn hefst kl. 13:00.

    Bæjarráð samþykkir að Hilda Jana Gísladóttir fari með umboð Akureyrarbæjar á fundinum.