Vefur í vinnslu
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Rætt að nýju um umferðaröryggismál á Hörgárbraut á svæði milli hringtorgs við Undirhlíð og Glerár. Á fundinn mættu Margrét Silja Þorkelsdóttir frá Vegagerðinni og Jónas Valdimarsson verkefnastjóri hönnunar á umhverfis- og mannvirkjasviði.
Skipulagsráð felur sviðsstjóra skipulagssviðs í samráði við umhverfis- og mannvirkjasvið og Vegagerðina að vinna tillögu að mögulegum úrbótum.
Jónas Valdimarsson verkefnastjóri hönnunar á umhverfis- og mannvirkjasviði kynnti tillögur að hönnun á götunni Krókeyri.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi hönnun miðað við 30 km götu.
Jónas Valdimarsson verkefnastjóri hönnunar á umhverfis- og mannvirkjasviði kynnti tillögur að útfærslu á gangstíg meðfram Sjafnargötu, sem felur í sér breiðari stíg en gildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir. Felur tillagan einnig í sér að lóð bensínstöðvar minnkar og hefur sú breyting verið samþykkt af lóðarhafa.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við fyrirliggjandi tillögu.
Að mati ráðsins er um svo óverulegt frávik frá deiliskipulagi að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn, sbr. ákvæði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Er því ekki talið að gera þurfi breytingu á deiliskipulaginu.
Jónas Valdimarsson verkefnastjóri hönnunar á umhverfis- og mannvirkjasviði kynnti tillögur að breyttri hönnun Skarðshlíðar ásamt aðliggjandi stígum.
Skipulagsráð þakkar Jónasi fyrir kynninguna.
Lagt fram til umræðu minnisblað bifreiðastæðasjóðs Akureyrar um gjaldtöku á bílastæðum í miðbæ Akureyrar.
Skipulagsráð tekur jákvætt í hugmyndir um gjaldtöku á bílastæðum í miðbæ Akureyrar og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að vinna áfram að málinu og gera tillögu að áætlun um innleiðingu í samráði við umhverfis- og mannvirkjasvið.
Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi M-lista óskar bókað að hann telji að það að auka álögur á íbúa bæjarins sé óásættanlegt. Gjaldtaka á bílastæðum í miðbæ Akureyrar er ekkert annað en auka skattur á íbúa.
Erindi dagsett 12. febrúar 2020 þar sem Haraldur Sigmar Árnason fyrir hönd Fasteigna ehf., kt. 581088-1409, sækir um leyfi til að byggja 4. hæðina á hús nr. 16 við Kaupvangsstræti. Meðfylgjandi eru myndir sem sýna útlit hússins fyrir og eftir breytingu.
Skipulagsráð frestar erindinu. Sviðsstjóra skipulagssviðs er falið að óska frekari gagna frá umsækjanda.
Erindi dagsett 12. febrúar 2020 þar sem Haraldur Sigmar Árnason fyrir hönd Bergfestu ehf., kt.610515-0370, sækir um breytingu á deiliskipulagi lóða 8, 10 og 12 við Matthíasarhaga. Óskað er eftir að byggja 2ja hæða fjölbýli í stað einbýlishúsa. Meðfylgjandi er teikning eftir Harald Sigmar Árnason.
Skipulagsráð hafnar því að svo stöddu að breyta deiliskipulagi í samræmi við fyrirliggjandi erindi.
Erindi dagsett 12. febrúar 2020 þar sem Sævar Helgason óskar eftir heimild til að breyta Norðurvegi 6-8 í Hrísey úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á húsnæðinu aðrar en almennt viðhald og gildandi teikningar því þar með gildar.
Að mati skipulagsráðs er forsenda breytingar í íbúðarhús að gerð verði breyting á aðal- og deiliskipulagi þar sem lóðin er núna skilgreind sem þjónustulóð. Í kjölfarið væri hægt að sækja um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun. Er sviðsstjóra skipulagssviðs falið að ræða við umsækjanda um framhald málsins.
Erindi dagsett 20. febrúar 2020 þar sem Brynjar Gauti Schiöth óskar eftir leyfi til að byggja u.þ.b. 80 m² bílskúr við einbýlishús sitt Sæborg á Óseyri. Sjá hugmynd af staðsetningu og stærð í viðhengi.
Skipulagsráð vísar málinu í vinnu við gerð deiliskipulags fyrir Holtahverfi norður.
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skipulagssviðs dagsett 20. febrúar 2020 þar sem lögð er fram tillaga að breytingu á gr. 2.4 í gjaldskrá Akureyrarbæjar fyrir gjöld skv. lögum um mannvirki og skipulagslögum og önnur afgreiðslu- og þjónustugjöld. Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir að framkvæmdaleyfisgjald umfangsmikilla framkvæmda verði samkvæmt samningi milli leyfisveitanda og framkvæmdaraðila en ekki miðað við fast gjald eins og nú er í gildandi gjaldskrá.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt.
Tekið fyrir að nýju erindi dagsett 4. október 2019 þar sem lögð er fram tillaga lóðarskrárritara Akureyrarbæjar um að gatan þar sem gróðrarstöðin Sólskógar stendur við fái götuheiti.
Skipulagsráð fól sviðsstjóra skipulagssviðs þann 30. október sl. að leita eftir tillögum að götuheiti frá nemendum Naustaskóla. Tillögur bárust 4. desember og voru sendar nafnanefnd til úrvinnslu.
Nafnanefndin leggur til að valið verði á milli Skógargötu og Músagötu.
Tillaga nafnanefndar var borin upp til atkvæða og fékk nafnið Skógargata 4 atkvæði og Músagata 1 atkvæði. Gatan fær því nafnið Skógargata.
Skipulagsráð þakkar nemendum Naustaskóla fyrir framlagðar tillögur.
Lagt fram erindi Steinmars H. Rögnvaldssonar dagsett 20. febrúar 2020, f.h. lóðarhafa Heiðartúns 5, þar sem óskað er eftir að heimilt verði að byggja 250 m² hús ásamt u.þ.b. 66 m² kjallara. Samkvæmt skilmálum deiliskipulags er heimilt að byggja 280 m² á lóðinni.
Þar sem fyrirhugað byggingarmagn umfram 280 m² er neðanjarðar telur skipulagsráð að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Er því ekki talin þörf á að breyta deiliskipulagi svæðisins, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Lögð fram til kynningar fundargerð 757. fundar, dagsett 6. febrúar 2020, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.
Lögð fram til kynningar fundargerð 758. fundar, dagsett 13. febrúar 2020, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 4 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.