Vefur í vinnslu
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Drög að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 vegna Blöndulínu 3 (Rangárlínu) voru kynnt skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 frá 18. desember 2024 til og með 23. janúar 2025. Í breytingunni felst afmörkun á helgunarsvæði fyrir háspennulínu frá sveitarfélagsmörkum að Rangárvöllum. Fram kemur að þegar tæknilegar forsendur bjóða upp á að þá verði hægt að setja hluta línunnar í jörðu og er sýnd tillaga að legu fyrirhugaðs jarðstrengs. Alls bárust tuttugu og tvær athugasemdir og þrjár umsagnir.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu og felur skipulagsfulltrúa að leita eftir umsögn Landsnets um efni innkominna athugasemda og umsagna.
Jóhann Jónsson S-lista óskar bókað eftirfarandi: Ég fagna því að leitað sé álits Landsnets vegna innkominna athugasemda og umsagna. Það er ljóst hver vilji bæjarbúa sé í þessu máli og fullreynt sé að ná sátt um þá leið sem fólgin er í lagningu Blöndulínu 3 sem loftlínu um efri byggðir Akureyrar. Stefna stjórnvalda um lagningu háspennulína í jörð í þéttbýli er skýr og þau neikvæðu áhrif af háspennulögn í loftlínu um þetta svæði á íbúa sem og framtíðar vaxtarmöguleika Akureyrar teljast vart umdeild lengur. Að öllu óbreyttu verður framkvæmdaaðili einfaldlega að leysa úr þeim tæknilegu úrlausnarefnum sem að hans mati standa í vegi fyrir því að framkvæmdin fari fram sem jarðstrengjalögn.
Lagt fram erindi Odds Kr. Finnbjarnarsonar dagsett 17. janúar 2025, f.h. lóðarhafa Hafnarstrætis 80-82, þar sem óskað er eftir að hámarkshæð þaks verði 18 m í stað 17,45 m vegna áætlana um stærri lyftu en upphaflega var miðað við. Er óskað eftir að þak verði hækkað frekar en að gera ráð fyrir að lyftustokkur gangi upp úr þaki. Þá er einnig óskað eftir heimild fyrir stækkun byggingarreits fyrir hótel til austurs við tröppur í inngarði, sem jafnfram felur í sér að ekki verður pláss fyrir ramp upp í inngarð.
Skipulagsráð samþykkir að gerð verði breyting á deiliskipulagi vegna hækkunar húsins til samræmis við erindið. Er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og skal hún grenndarkynnt skv. 44. gr. laganna. Grenndarkynnt skal fyrir lóðarhöfum Austurbrúar 10-16. Skipulagsráð hafnar framlagðri tillögu um viðbyggingu og óskar eftir annarri útfærslu þar sem tekið er tillit til almenns aðgengis.
Lögð fram tillaga að uppbyggingu á lóðum við Miðholt. Athugasemdir og umsagnir sem bárust við lýsingu aðalskipulagsbreytingarinnar voru hafðar til hliðsjónar við útfærslu tillögunnar.
Skipulagsráð tekur jákvætt i fyrirliggjandi tillögu þar sem m.a. er komið til móts við athugasemdir varðandi aukna umferð um Miðholt með því að gera ráð fyrir að inn- og útkersla bílakjallara verði frá Langholti. Er samþykkt að fela skipulagsfulltrúa að kynna drög að breytingu á aðalskipulagi skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem heimilar að á svæðinu megi fjölbýlishús vera þrjár hæðir í stað tveggja og að fjöldi íbúða geti verið á bilinu 40-60. Þá er gert ráð fyrir sambærilegri kvöð um trjágróður innan lóðar og er í deiliskipulagi Móahverfis. Til samræmis við lýsingu aðalskipulagsbreytingar er samþykkt að aðalskipulagsbreytingin nái einnig til lóðarinnar Hlíðarbraut 4 (merkt VÞ17) þar sem gert verður ráð fyrir heimild fyrir íbúðum á efri hæðum en verslunar- og þjónustustarfsemi á jarðhæð.
Jón Hjaltason óflokksbundinn situr hjá við atkvæðagreiðslu.
Lagt fram að nýju erindi dagsett 9. janúar 2024 þar sem Hafnasamlag Norðurlands óskar eftir að afmörkuð verði lóð fyrir nýtt aðstöðuhús sem ráðgert er að verði reist austan við núverandi lóð við Fiskitanga 2 eða þá að sú lóð verði stækkuð. Felur þetta í sér breytingu á deiliskipulagi hafnarsvæðis sunnan Glerár.
Skipulagsráð tekur jákvætt í fyrirliggjandi tillögu og samþykkir að heimila umsækjanda að leggja fram tillögu að deiliskipulagi til samræmis við hana. Felur það einnig í sér að ekki verður áfram gert ráð fyrir að Hjalteyrargata tengist inn á Laufásgötu í gegnum lóð Fiskitanga 4.
Lögð fram að lokinni auglýsingu tillaga að endurskoðun deiliskipulags íþróttasvæðis Þórs. Ein athugasemd barst við auglýsta tillögu á kynningartíma ásamt umsögnum frá Minjastofnun Íslands og Norðurorku. Er tillagan lögð fram með nokkrum breytingum til að koma til móts við innkomna athugasemd auk þess sem bætt hefur verið við tveimur byggingarreitum vestan við fyrirhugaðan völl þar sem gert er ráð fyrir gámum í tengslum við upptökur og byggingarreit við norðvesturhluta vallarins fyrir hálfniðurgrafið tæknirými og snyrtingar.
Er jafnframt lögð fram tillaga að umsögn um efni athugasemdar.
Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Jóhann Jónsson S-lista á því athygli að hann teldi sig vanhæfan að fjalla um þennan lið.
Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir skipulagsráð og var það samþykkt.
Jóhann Jónsson S-lista vék af fundi undir þessum lið.
Skipulagsráð telur mikilvægt að bætt verði kafla í ljósvistarskipulag Akureyrarbæjar um lýsingu á keppnisvöllum og verði birt á heimasíðu Akureyrarbæjar. Ráðið samþykkir umsögn um innkomna athugasemd og leggur til við bæjarstjórn að endurskoðun deiliskipulags íþróttasvæðis verði samþykkt með tilgreindum breytingum eftir auglýsingu.
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Háskólans vegna uppbyggingar á stúdentagörðum lögð fram að lokinni auglýsingu. Fyrir liggja nýjar umsagnir frá umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar og Minjastofnun Íslands auk viðbragða umsækjanda við efni umsagna.
Afgreiðslu frestað og skipulagsfulltrúa falið að eiga samráð við umhverfis- og mannvirkjasvið og skipulagsráðgjafa um framhald málsins.
Lögð fram að nýju tillaga að endurskoðun húsnæðisáætlunar fyrir Akureyrarbæ, sem gildir fyrir tímabilið 2024-2034.
Skipulagráð samþykkir húsnæðisáætlun fyrir Akureyrarbæ, sem gildir fyrir tímabilið 2024-2034, með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum og vísar málinu til bæjarstjórnar.
Jón Hjaltason óflokksbundinn situr hjá við afgreiðslu erindisins.
Erindi dagsett 15. janúar 2025 þar sem Arnþór Tryggvason f.h. atNorth ehf. sækir um stöðuleyfi fyrir fimm gámum undir skrifstofur til eins árs á lóð nr. 1 við Hlíðarvelli. Innkomin gögn eftir Arnþór Tryggvason.
Byggingarfulltrúi óskar umsagnar skipulagsráðs um erindið.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við að veitt verði stöðuleyfi til samræmis við erindið til 1 árs og vísar málinu til byggingarfulltrúa.
Liður 1 úr fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa dagsettri 23. janúar 2025:
Erindi dagsett 21. janúar 2025 þar sem Hafnasamlag Norðurlands sækir um stöðuleyfi fyrir allt að 15 smáhýsi á rútustæði við Oddeyrartanga.
Byggingarfulltrúi óskar umsagnar skipulagsráðs um erindið.
Skipulagsráð tekur jákvætt í að veitt verði stöðuleyfi til samræmis við erindið enda samræmist það ákvæðum gildandi deiliskipulags fyrir lóðina og vísar málinu til byggingarfulltrúa.
Lögð fram endurskoðuð tillaga að útboðsskilmálum fyrir lóðirnar Hofsbót 1-3.
Skipulagsráð samþykkir að vísa ákvörðun um útboð lóðanna til bæjarráðs og ákvörðun um hlutfall gatnagerðargjalds til bæjarstjórnar.
Lögð fram til kynningar niðurstaða þjónustukönnunar Gallup fyrir árið 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 1000. fundar, dagsett 16. janúar 2025, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 3 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.
Lögð fram til kynningar fundargerð 1001. fundar, dagsett 23. janúar 2025, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 3 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.