Vefur í vinnslu
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Drög að endurskoðun á skólastefnu Akureyrarbæjar lögð fram tilkynningar og afgreiðslu.
Fræðsluráð vísar drögunum til kynningar í ráðum bæjarfélagsins.
Sviðsstjóra fræðslusviðs er falið að útbúa erindisbréf fyrir vinnuhóp vegna áframhaldandi vinnu við gerð skólastefnu og leggja fyrir næsta fund fræðsluráðs.
Árni K. Bjarnason forstöðumaður rekstrar kynnti stöðu rekstrar fræðslumála fyrir janúar og febrúar 2019.
Erindi barst frá mennta- og menningarmálaráðuneyti dagsett 5. mars 2019 um könnun á innleiðingu aðalnámskrár grunnskóla.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur hafið undirbúning á endurskoðun aðalnámskrár grunnskóla frá 2011 og 2013. Einn þáttur þeirrar endurskoðunar er könnun á því meðal grunnskóla hvernig gengið hefur að innleiða aðalnámskrá og til að afla upplýsinga um hvernig ráðuneytið getur í framtíðinni betur stutt við innleiðingu aðalnámskrár.
Naustaskóli er einn fjögurra skóla utan höfuðborgarsvæðisins sem valinn hefur verið til úttektar á hvernig til hefur tekist. Annars vegar verður send rafræn könnun til skólastjóra og hins vegar verður farið í vettvangsheimsókn.
Lagt fram til kynningar.
Erindi barst frá Menntamálastofnun dagsett 1. mars 2019 þar sem óskað er eftir því að Naustaskóli sendi Menntamálastofnun, fyrir 20. mars 2019, tímasetta áætlun um hvernig brugðist verður við þeim tillögum og ábendingum sem fram koma í skýrslunni um ytra mat á skólanum. Skólastjóri hefur brugðist við erindinu og sent inn umbótaáætlun fyrir skólann.
Lagt fram til kynningar.
Fræðslusvið hefur óskað eftir að komið verði fyrir tveimur kennslustofum við leikskólann Lundarsel. Ef af verður munu stofurnar standa á lóð Lundarskóla en tengdar Lundarseli.
Fræðsluráð samþykkir erindið og vísar því til umhverfis- og mannvirkjasviðs til frekari úrvinnslu.
Formaður fræðsluráðs gerði grein fyrir stöðu vinnunnar í starfshópnum Brúum bilið.
Erindi frá Jóni Baldvin Hannessyni skólastjóra Giljaskóla barst þann 21. febrúar 2019 þar sem óskað er eftir því að fræðsluráð taki afstöðu til óska íþróttafélaga og annarra aðila um undanþágu frá viðmiðunarstundaskrá fyrir grunnskólanemendur vegna íþróttaæfinga og annarrar tómstundaiðkunar.
Afstaða fræðsluráðs er skýr hvað varðar skólasókn grunnskólanemenda.
Samkvæmt lögum ber börnum á grunnskólaaldri skylda að mæta í skólann í 180 daga á ári. Í aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 2011 er kveðið á um að skólastjóra sé heimilt að veita tímabundin leyfi frá skólavist með samþykki foreldra, viðurkenna nám sem er stundað utan grunnskóla eða meta þátttöku s.s. í íþróttastarfi eða félagslífi sem nám í valgreinum á unglingastigi. Skólastjórum er ekki heimilt að veita viðvarandi heimildir fyrir undanþágu frá skólasókn utan þess sem tiltekið er í 16. kafla aðalnámskrár.
Fræðsluráð leggur ríka áherslu á að skólastjórar fylgi ákvæðum aðalnámskrár sem eru skýr hvað þetta varðar.
Jafnframt vísar fræðsluráð ofangreindri bókun til frístundaráðs til umræðu og kynningar.