Vefur í vinnslu
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Bækur, kvikmyndir, kökuform og klórur - það eru ótrúlegustu hlutir sem hægt er að fá lánaða hjá okkur!
Á Amtsbókasafninu er lagður metnaður í að bókakostur safnsins höfði til breiðs hóps bókasafnsgesta. Á neðri hæð safnsins má finna barnabækur, teiknimyndasögur, fantasíur og ýmsar fagbækur, svo eitthvað sé nefnt. Á efri hæðinni eru skáldsögur, fræðibækur og safnið „Gamalt og gott“.
Á Amtsbókasafninu eru um tvö til þrjú hundruð hljóðbækur; skáldsögur, ævisögur, fræðibækur o.fl. Hljóðbækurnar eru aðallega á íslensku og ensku en einnig eru til hljóðbækur á öðrum tungumálum. Hljóðbækur eru til fyrir alla aldurshópa.
Rafbókasafnið í hnotskurn: Til þess að tengjast Rafbókasafninu með snjallsímatæki byrjar þú á því að sækja app-ið Libby. Þú þarft gilt bókasafnskort og lykilorð hjá Amtsbókasafninu (það sama og notað er á amt.leitir.is, athugið að ekki er hægt að nota rafræn skilríki í Rafbókasafninu).
Á Amtsbókasafninu er fjölbreytt úrval tímarita en keypt eru vel á fimmta tug titla í safnið. Ýmis íslensk fagtímarit er að finna í safninu auk velvaldra erlendra tímarita. Þess utan er fjöldinn allur af innlendum og erlendum dægurtímaritum. Hægt er að fletta upp á amt.leitir.is til að athuga hvort tiltekið tímarit sé til á Amtsbókasafninu.
Vert er að benda á landsaðgang að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum - hvar.is sem veitir öllum sem tengjast Netinu um íslenskar netveitur aðgang að heildartexta tímaritsgreina úr um 21 þúsund tímaritum og útdráttum greina um 10 þúsund tímarita.
Velkomin í kvikmyndadeildina okkar! Útgáfa á mynddiskum fer minnkandi en við þraukum enn. Það er nefnilega góð skemmtun að horfa á kvikmynd og enn erum við þó nokkur sem elskum það að opna hulstrið, taka út diskinn og setja í tækið! Við bjóðum upp á mikinn fjölda mynda; nýjar, gamlar og á mörgum tungumálum. Allar tillögur og athugasemdir eru vel þegnar (doddi@amtsbok.is) - takk. Allir mynddiskar eru lánaðir út í 7 daga.
Í spiladeild Amtsbókasafnsins eru yfir 300 borðspil til útláns. Hér má sjá yfirlit yfir spil í eigu safnsins, öll borðspil eru lánuð í 30 daga. Yfir vetrartímann eru vikulegir spilaviðburðir, Spilafjör fyrir 9-13 ára alla mánudaga og Borðspilakvöld fyrir fullorðin alla þriðjudaga. Dagsetningar spilaviðburða er að finna í viðburðadagatali Amtsbókasafnsins.
Nú er Amtsbókasafnið komið með garðverkfæri, kökuform, nuddtæki, lautarkörfur, plokktangir og hleðslusnúrur fyrir síma í útlán. Hægt er að fá nuddtækið og snúrurnar lánaðar innanhúss gegn framvísun bókasafnsskírteinis í afgreiðslu safnsins. Garðverkfærin, kökuformin og plokktangirnar lánast út úr húsi. Athugið! Það þarf að hreinsa garðverkfærin og þvo kökuformin áður en þeim er skilað (það má ekki setja þau í uppþvottavél).
Kökuformin okkar verða vinsælli með hverjum deginum. Hér fyrir neðan má sjá myndir af öllum formunum okkar og heitin á þeim. Lánstíminn er 30 dagar og við biðjum fólk auðvitað um að þrífa formin áður en þeim er skilað.