Bækur
Á Amtsbókasafninu er lagður metnaður í að bókakostur safnsins höfði til breiðs hóps bókasafnsgesta. Við val á safngögnum er einkum miðað við að almenningur á öllum aldri eigi greiðan aðgang að vönduðum og fjölbreyttum safnkosti og að safnkosturinn uppfylli óskir og þarfir notenda. Á neðri hæð safnsins má finna barnabækur, teiknimyndasögur, fantasíur og ýmsar fagbækur, svo eitthvað sé nefnt. Á efri hæðinni eru skáldsögur, fræðibækur og safnið „Gamalt og gott“ (sjá að neðan).
Leita í safnkosti amtsbókasafnsins á amt.leitir.is
Sendu inn tillögu um efniskaup.
Bókin sem mig vantar er ekki til hjá ykkur
Annað fróðlegt
Fantasíudeildin okkar hefur vakið verðskuldaða athygli. Umsjónarmaður hennar er Reynir Elías Einarsson og safngestir grípa ekki í tómt með því að rabba við hann um teiknimyndasögur og allt það sem í deildinni finnst. Henni er í grófum dráttum skipt upp í þrjá hluta: vísindaskáldsögur, teiknimyndasögur fyrir fullorðna og svo manga-bækurnar. Vísindaskáldsögunum er raðað upp í stafrófsröð eftir nöfnum höfunda, teiknimyndasögunum flestum er raðað upp eftir seríunum (Garfield, Spider-Man, Superman ... o.s.frv.) og til hægðarauka höfum við aðgreint „erkifjendurna“ DC og Marvel. Manga-bækurnar eru svo líka í röð eftir seríu-heitum.
Amtsbókasafnið hefur tugi þúsunda bóka til útláns, en þær komast ekki allar fyrir í aðalrýminu á 1. og 2. hæð. Þess vegna höfum við herbergi/geymslu sem við í daglegu tali köllum „Gamalt og gott“, en þar er að finna skáldsögur og fræðibækur gefnar út fyrir árið 2000, unglingabækur gefnar út fyrir árið 2005 og barnabækur gefnar út fyrir árið 2000.
Einnig er þar að finna stóran hluta af allri Ásútgáfunni sem og Ísfólkinu. Jólabækur, jólakvikmyndir og jólatímarit eru geymd þarna líka. Sumir bókaunnendur kalla þetta „fjársjóð“ þar sem þarna má t.d. finna heildarútgáfu Guðrúnar frá Lundi og Ingibjargar Sigurðardóttur, gömlu Árbækur Ferðafélags Íslands, Ravn-bækurnar, Sögu Húsavíkur, ritröðina flottu um heimsstyrjöldina síðari ... o.fl. o.fl.
En hvar er þessi fjársjóður? „Gamalt og gott“ er að finna á 2. hæðinni, inni í skoti á hægri hönd þegar gengið er upp tröppurnar til suðurs. Öllum er frjáls aðgangur og allt efnið þarna inni er til útláns.
Við var á bókum eru eftirfarandi atriði einnig höfð að leiðarljósi:
- Símenntun
- Örvun lestraráhuga
- Efling íslenskrar tungu
- Úrval bóka á erlendum tungumálum
- Efling á gagnkvæmum skilningi milli mismunandi þjóða og þjóðfélagshópa
- Jafnrétti kynja og menningarhópa
- Þátttaka í framþróun t.d. hvað raf- og stafræna útgáfu varðar
Við tökum að okkur að útvega efni frá öðrum bókasöfnum ef það er ekki til á Amtsbókasafninu á Akureyri. Allir sem eiga gild bókasafnsskírteini hjá okkur geta nýtt sér þessa þjónustu.
Hægt er að fletta upp á amt.leitir.is til að athuga hvort tiltekin bók eða rit sé til á Amtsbókasafninu. Ef svo er ekki má alltaf láta okkur vita ef þú veist um efni sem þér finnst að ætti að vera til hjá okkur. Stysta leiðin til þess er að fylla út tillögu um efniskaup, sem má gera með því að smella hér.