Vefur í vinnslu
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Safnefni fyrir börn og ungmenni er staðsett á fyrstu hæð safnsins
Í barnadeildinni finnur þú barnabækur á íslensku ásamt bókum á erlendum tungumálum. Einnig finnur þú þar dvd myndir fyrir börn og vinsælu ævintýrapokana. Markmið okkar er að barnadeildin sé hlýleg og notaleg þar sem fjölskyldur geti átt saman góðar stundir.
Barnabókavörður er Eydís Stefanía Kristjánsdóttir. Vinnutími hennar er: mánudagar og þriðjudagar: 8-14 , miðvikudagar: 8-13, fimmtudagar: 8-12/16-18 og föstudagar: 8-12. Netfang er eydisk@amtsbok.is
Í ungmennadeildinni er að finna gott úrval af ungmennabókum á íslensku og ensku. Við reynum að fylgjast vel með því hvað er vinsælt á booktok og kaupa inn fyrir deildina. Yfir vetrartímann erum við með vikulegan bókaklúbb fyrir ungmenni í 8.-10. bekk sem nemendur fá metið sem valgrein í skólanum. Hrönn Soffíu Björgvinsdóttir sér um ungmennastarfið, netfang hennar er hronnb@amtsbok.is
Sögustundir alla fimmtudaga frá klukkan 16:30 til 18:00. Lesnar eru 1-2 bækur og síðan föndrum við saman á eftir. Foreldramorgnar alla þriðjudaga frá klukkan 10-12. Einu sinni í mánuði erum við með fræðslu tengda ungbörnum fyrir foreldra.
Einu sinni í mánuði á laugardögum bjóðum við upp á fjölskylduviðburð þar sem við komum saman og föndrum, lesum, leirum, perlum eða gerum eitthvað annað skemmtilegt.
Í október á hverju ári er bangsamánuður á safninu. Þá heimsækja leikskólar bæjarins safnið og Bella bókasafnsbangsi les fyrir þau sögu. Í lok mánaðarins er Stóra bangsasögustundin, þá er öllum velkomið að koma að hlusta á Bellu lesa sögu og föndra á eftir.
Í janúar ár hvert heimsækir Bella bókasafnsbangsi leikskólana og bíður upp á lestur og knús.
Við erum með lestrarhvetjandi áskoranir á hverju sumri til þess að hvetja til heimalesturs yfir sumarmánuðina.
Árlega tilnefna börn á aldrinum 6-15 ára bestu barnabækur ársins. Tilnefningarnar fara fram á heimasíðu Borgarbókasafnsins og í grunnskólum og bókasöfnum um land allt. Veitt eru verðlaun fyrir eina frumsamda bók og aðra þýdda.
Verðlaunin eru veitt ár hvert á sumardaginn fyrsta. Amtsbókasafnið á Akureyri dregur út einn heppinn þátttakanda úr hverjum grunnskóla hér á Akureyri ásamt þátttakanda hér á Amtsbókasafninu.
Við bjóðum upp á safnkynningu fyrir elstu börn leikskólanna (5-6 ára), 3. bekk, 6. bekk og 9. bekk
Smellið á hlekkinn til að lesa meira um safnkynningar
Á sumrin bjóðum við upp á smiðjur fyrir börn á aldrinum 7-12 ára.
Þekkir þú barn sem hefur gaman af að spila? Yfir vetrartímann eru haldnir spila„hittingar“ á Amtsbókasafninu fyrir börn á aldrinum 9-13 ára. Hópurinn hittist á kaffiteríu safnsins alla mánudaga kl. 15-16.
Allir krakkar á aldrinum 9-13 ára eru hjartanlega velkomnir! Ekkert þátttökugjald. Engin þörf er á að skrá sig fyrirfram, nóg er að mæta á staðinn. Foreldrar og forráðamenn geta fylgst með starfi spilafjörsins í hóp á Facebook.
Nánari upplýsingar veitir ungmennabókavörðurinn Hrönn á netfanginu: hronnb@amtsbok.is. Dagsetningar spilafjörsins er að finna í viðburðadagatali Amtsbókasafnsins.